Miðvikudagur 05. 11. 14
Í dag ræddi ég við Árna Zophoníasson og Ingibjörgu Jónu Friðbertsdóttur í þætti mínum á ÍNN en þau sendu nýlega frá sér Tebókina, fallega bók um te og tedrykkju.
Þáttur minn með Þórhalli Ólafssyni, forstjóra Neyðarlínunnar, frá 29. október er kominn á netið og má sjá hann hér.
Úrslit kosninganna Bandaríkjunum þriðjudaginn 4. nóvember eru mikið áfall fyrir Barack Obama og Demókrataflokk hans. Repúblíkanar fengu meirihluta í öldungdadeild Bandaríkjaþings, juku meirihluta sinn í fulltrúadeildinni og fjölguðu ríkisstjórum sínum. Þá vekur athygli að innan flokks repúblíkana var félögum í Tea Party ýtt til hliðar í kosningunum og mega þeir sín ekki eins mikils og áður enda lítt til þess fallnir að tryggja nokkrum stjórnmálaflokki almennan stuðning meðal kjósenda þótt sjónarmið þeirra eigi rétt á sér í pólitískum og hugmyndafræðilegum umræðum.
Í kosningabaráttunni vildu frambjóðendur demókrata sem minnst af Obama vita og ekki var sóst eftir honum sem ræðumanni á kosningafundum, litið var á hann sem atkvæðafælu. Það er síðan dæmigert um spuna stjórnmálanna að nú láta málsvarar Obama þau boð út ganga að hið slæma gengi flokks hans megi rekja til þess að honum hafi verið haldið víðs fjarri!
Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina um fráleita stjórnsýslu í málefnum Reykjavíkurflugvallar undir stjórn borgarstjóranna Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar. Ætlunin er að þrengja að flugvellinum með aðferðum eins og þeim að láta undir höfuð leggjast að sneiða ofan af grenitrjám í Öskjuhlíð þar sem þó er stunduð grisjun. Pistilinn má lesa hér.
Einkennilegt er að heyra Steingrím J. Sigfússon, fyrrv. fjármálaráðherra, kvarta undan því á alþingi að Már Guðmundsson seðlabankastjóri lýsi stöðu efnahagsmála í landinu á þann veg að aðrar þjóðir öfundi okkur. Á meðan Steingrímur J. var ráðherra leið varla vika án þess að hann flytti ekki fréttir af eigin afrekum við stjórn efnahagsmála sem vektu ekki aðeins öfund heldur einnig spurn eftir honum sjálfum með óskum um að hann tæki að sér að bjarga öðrum þjóðum.
Steingrímur J. ákvað að láta reyna á alþjóðlegt traust til sín á vettvangi Norðurlandaráðs fyrir skömmu og bauð sig fram til forseta þings ráðsins gegn Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Steingrímur J. gjörtapaði fékk níu atkvæði en Höskuldur 52.