7.11.2014 19:10

Föstudagur 07. 11. 14

Í dag var ég meðal viðmælenda í þættinum Víðsjá  á rás 1 og ræddum við um hrun Berlínarmúrsins, aðdraganda og eftirleik, eins og heyra má hér.

Menn ættu að ímynda sér hvernig ríkisfréttastofan hefði látið ef borgarstjóri úr Sjálfstæðisflokknum hefði skrifað undir samkomulag við ráðherra nokkrum dögum áður ráðherrann gekk til kosninga og síðan hefði samkomulagið verið látið liggja óstaðfest í 18,5 mánuði og ekkert með það gert fyrr vakið var máls á því í fjölmiðlum. Þá lá borgarstjóra svo mikið á að kynna samkomulagið í borgarráði að hann hafði ekki tíma til að sitja sameiginlegan fund þingnefnda til að kynna sjónarmið Reykjavíkurborgar til þess máls sem var til umræðu, flugvallarmálsins.

Í Morgunblaðinu segir í dag hinn 7. nóvember:

„Þótt meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hafi í fyrradag samþykkt breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri, sem felur það í sér að neyðarflugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verður að víkja, er afgreiðslu málsins ekki lokið af hálfu borgarinnar.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á sæti í borgarráði. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að næsta stig málsins væri að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs kæmi til umfjöllunar og afgreiðslu í borgarráði. „Það stendur þannig á að málið fer ekki til afgreiðslu í borgarráði á fundi þess í næstu viku, eins og til hefði staðið, vegna þess að það verða ekki staddir á landinu allir embættismennirnir sem eiga að fylgja málinu eftir, hvað varðar kynningu í borgarráði,“ sagði Júlíus Vífill.

Júlíus Vífill segir að málið verði bersýnilega einnig afgreitt í ágreiningi í borgarráði, og muni því koma til sérstakrar afgreiðslu í borgarstjórn, væntanlega 2. desember nk.“

Athyglisvert er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gat ekki skroppið af borgarráðsfundi til þingnefnda í gær af því að hann lagði þar fram 18,5 mánaða gamalt samkomulag. Í næstu viku getur borgarráð ekki tekið glænýja samþykkt í hinu mikilvæga flugvallarmáli til umræðu af því að „allir embættismennirnir“ verða ekki á fundinum.

Það kemur alltaf betur og betur í ljós að tilburðir borgarstjóra í flugvallarmálinu miða að laumulegri afgreiðslu þess á vettvangi borgarstjórnar. Því ber að fagna að sjálfstæðismenn eru hættir að taka þessum vinnubrögðum þegjandi.