11.11.2014 21:00

Þriðjudagur 11. 11. 14

Spennusagnahöfundi hefði aldrei dottið í hug að semja bók sem lyktaði á þann veg sem birtist í Kastljósi í kvöld þegar þeir ræddu saman Helgi Seljan þáttarstjórnandi og Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Ráðherrann rak Gísla Frey í dag þegar hún frétti að í tæpt ár hefði hann sagt ósatt um hlut sinn í lekamálinu svonefnda – hann lak skjalinu fræga um Tony Omos og bætti inn í það setningu sem var hugarburður Gísla Freys.

„Maður kem­ur á ein­hverj­um tíma­punkti á enda­stöð þar sem maður átt­ar sig á því að maður get­ur ekki sagt ósatt leng­ur. Ég er er bara svo­lítið kom­inn þangað núna,“ sagði Gísli Freyr í Kastljósinu.

Í yfirlýsingu Hönnu Birnu sagði:

Trúnaðar­brot Gísla Freys gagn­vart mér, ráðuneyt­inu og al­menn­ingi öll­um er al­gjört og al­var­legt.  Gísli Freyr hef­ur ít­rekað haldið fram sak­leysi sínu, ekki aðeins gagn­vart yf­ir­völd­um og fjöl­miðlum, held­ur einnig gagn­vart sam­starfs­fólki sínu og yf­ir­mönn­um í ráðuneyt­inu.

Í fram­haldi af játn­ingu Gísla Freys var hon­um fyr­ir­vara­laust vikið úr störf­um í ráðuneyt­inu.

Ég harma brot Gísla Freys, ekki aðeins gagn­vart þeim sem brotið var gegn með lek­an­um sjálf­um, held­ur einnig gagn­vart því sam­starfs­fólki sem trúað hef­ur yf­ir­lýs­ing­um hans um sak­leysi og því hvernig at­hæfi hans hef­ur varpað skugga á störf ráðuneyt­is­ins um margra mánaða skeið.

Sú staðreynd að fyrr­ver­andi aðstoðarmaður minn hafi brotið svo al­var­lega á trúnaði gagn­vart mér sem ráðherra, sem ít­rekað hef haldið uppi vörn­um fyr­ir hann í því trausti að hann hefði skýrt mér og öðrum satt og rétt frá, kem­ur mér al­gjör­lega í opna skjöldu og er þyngri byrði fyr­ir mig en ég get lýst í fáum orðum.“

Það er ótrúlegt að hafa komið sér og öðrum í þann vanda sem Gísli Freyr gerði með framkomu sinni og ósannindum.

Næst hefur réttvísin sinn gang í málinu. Gísli Freyr sagði í Kastljósinu að hann hefði valið þennan tíma til að leysa frá skjóðunni af því að hann vildi ekki hlusta á samstarfsfólk sitt bera blak af sér í góðri trú um að hann hefði ekki brotið af sér. Hið óskiljanlega er að hann skyldi ekki hafa sagt sannleikann strax 20. nóvember 2013.