6.11.2014 18:00

Fimmtudagur 06. 11. 14

Miðvikudaginn 5. nóvember samþykkti meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur tillögu sem minnihlutinn telur að leiði til þess að öryggi Reykjavíkurflugvallar verði „óásættanlegt“ auk þess sem bíða eigi eftir að nefnd undir formennsku Rögnu Árnadóttur um framtíð flugvallar í eða við Reykjavík skili áliti.

Ríkið er aðili að öllum ákvörðunum vegna flugvallarins og í framhaldi af meirihluasamþykkt nefndar Reykjavíkurborgar var samfylkingarmönnunum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Hjálmari Sveinssyni nefndarformanni snarlega boðið á sameiginlegan fund tveggja þingnefnda, atvinnuveganefndar annars vegar og umhverfis- og samgöngunefndar hins vegar. Hvorugur þáði boðið. Bar borgarstjóri því við að fundarboð bærist með of skömmum fyrirvara auk þess sem borgarráð kæmi saman þegar þingnefndirnar funduðu.

Fyrir borgarráð fimmtudaginn 6. nóvember lagði Dagur B. tillögu um að ráðið staðfesti samkomulag sem Jón Gnarr og Ögmundur Jónasson rituðu undir hinn 19. apríl 2013 en ég vakti máls á því hér á síðunni mánudaginn 27. október sl. að samkomulagið væri óundirritað. Varð það m. a. tilefni fréttar Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu laugardaginn 1. nóvember. Fékk Agnes aldrei svar frá Degi B. hvers vegna hann hefði ekki sem formaður borgarráðs lagt samkomulagið fyrir ráðið í apríl 2013 eftir að það var undirritað. Dagur B. hunsaði Agnesi og fór undan í flæmingi.

Að Dagur B. hafi ekki haft tíma til að sitja fund tveggja þingnefnda um málefni Reykjavíkurflugvallar af því að hann þurfti að leggja 18,5 mánaða gamalt samkomulag um flugvöllinn fyrir borgarráð segir allt sem segja þarf um hve illa er haldið á flugvallarmálinu af hálfu Dags B. og félaga.

Þeir pukrast með flugvallarmálið af því að þeir vita um andstöðu mikils meirihluta fólks við stefnu sína og gjörðir. Ætlunin er að láta almenning standa frammi fyrir orðnum hlut. Að sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafi auðveldað þeim þessi vinnubrögð hefur í raun minnst með flugvallarmálið að gera heldur vekur spurningar um hvort farið sé með fleiri mál á þennan laumulega hátt innan bogarstjórnar í nafni „fjölskyldustemmningar“ svo að brúkað sé orðið sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur notar um andrúmsloftið í hæstarétti.

Vegna samkomulagsins frá 19. apríl 2013 var skipaður starfshópur sem dó drottni sínum af því að Jón Gnarr gerði nýtt samkomlag við nýjan innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í október 2013. Verður nú blásið lífi í þann hóp að nýju? Hafist handa við að lækka grenitré í Öskjuhlíðinni? Reisa nýja flugstöð?

Ruglið tekur engan enda. Hvernig væri að semja svarta hvítbók um flugvallarmálið frá því að R-listinn tók að berjast gegn Reykjavíkurflugvelli?