24.11.2014 19:23

Mánudagur 24. 11. 14

Í dag ræddi ég við Þorgeir og Kristófer í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um stöðu aðstoðarmanns og fleira varðandi stjórnsýsluna vegna árása á Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Má hlusta á samtal okkar hérna. 

Reynt hefur verið að afflytja hlut Sigríðar Bjarkar í þessu máli með fréttum um að óeðlilegt hafi verið að hún brygðist við tilmælum aðstoðarmanns innanríkisráðherra um upplýsingar. Einkennilegt var að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins skyldi segja að aðstoðarmaður hefði brotið reglur með ósk um upplýsingar um málefni sem bar hátt í fjölmiðlum á þeim tíma sem beiðnin var lögð fyrir lögreglustjórann á Suðurnesjum.

Stjórn Lögreglustjórafélags Íslands hefur ekki fengið nein boð um að félagsmenn þess eigi ekki að svara tilmælum frá aðstoðarmanni innanríkisráðherra. Í ályktun stjórnarinnar í dag kemur fram að hún lítur svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna innanríkisráðneytisins til samskipta við lögreglustjóra. Lögreglustjórar hafi talsverð samskipti við starfsmenn innanríkisráðuneytisins og aldrei hafi það gerst að efast hafi þurft um heimild starfsmanna ráðuneytisins.

Í tilkynningu lögreglustjóranna segir að samskipti Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys Valdórssonar, þáv. aðstoðarmanns, hafi verið gerð tortryggileg. „Er það gert með því að láta að því liggja að lögreglustjórinn beri með einhverjum hætti ábyrgð á aðkomu aðstoðarmannsins og því að hann vistaði ekki minnisblaðið í skjalasafni ráðuneytisins,“ segir í ályktun stjórnar félags lögreglustjóra.

Fréttir sem snerta Sigríði Björk bera með sér að lekið hafi verið upplýsingum úr rannsóknargögnum er varða mál Gísla Freys. Það hlýtur að vera sérstakt rannsóknarefni rannsóknarblaðamanna hvaða rannsóknargögnum má leka án þess að saksóknari krefjist rannsóknar.