26.11.2014 21:00

Miðvikudagur 26. 11. 14

Hinn 19. nóvember ræddi ég við Ragnar Jónasson rithöfund á ÍNN og má sjá þáttinn hér.

Í dag ræddi ég hins vegar við Sigríði Hjartar í Múlakoti um áformin um að endurgera gamla bæinn þar og hinn sögufræga garð á staðnum.  Má sjá samtalið klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofunun um framtakið og unnið er að því að koma á fót vinafélagi til að skapa sjálfseignarstofnuninni umgjörð stuðningsmanna.

Fjármálaráðuneytið kynnti í dag tillögu um ráðstöfun á fjármunum sem ekki voru á hendi þegar unnið var að fjárlagafrumvarpinu sl. sumar. Ákveðið hefur verið að matarskattur hækki úr 7% í 11% en ekki 12% eins og fyrir liggur í frumvarpi til fjárlaga. Við þessa breytingu fallast þingmenn Framsóknarflokksins á hækkun skattsins.

Tilkynningin um 11%  matarskattinn varð fréttamanni ríkisútvarpsins tilefni til einhverra fullyrðinga frá eigin brjósti í hádegisfréttum sem fjármálaráðuneytið leiðrétti síðan með sérstakri yfirlýsingu síðar í dag.

Í kvöldfréttum ræddi fréttamaður ríkisútvarpsins við Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar alþingis, um ákvörðun stjórnarflokkanna um að hækka framlag til Landspítala um einn milljarð króna. Fréttamaðurinn nálgaðist viðfangsefnið á þann veg að þessi hækkun væri bara sjálfsögð af því að landsmenn lifðu lengur og þyrftu því meiri umönnun. Vigdís minnti hann á að þróunin hefði einnig verið á þennan veg á síðasta kjörtímabili og þá hefði framlag til spítalans verið lækkað.

Þessi tvö dæmi um efnistök fréttamanna ríkisútvarpsins eru nefnd hér vegna þess að þau eru til stuðnings því sem fram kemur í grein sem Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar um ríkisútvarpið í Morgunblaðið í dag og lesa má hér.

Það er engin tilviljun að dragi úr áhorfi á sjónvarpsfréttir ríkisins og Kastljós. Tilgangur fréttamanna virðist frekar vera að skapa viðmælendum sínum vandræði en að afla frétta og miðla upplýsingum.