30.11.2014 19:00

Sunnudagur 30. 11. 14

Svissneskir kjósendur höfnuðu í dag með yfirgnæfandi meirihluta (77%) í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um að Seðlabanki Sviss skyldi jafnan sjá til þess að 20% af varasjóði hans væri í gulli. Svissneski þjóðarflokkurinn stóð að baki tillögunni til að minnka evru-eign bankans en hann hefur safnað hundruð milljarða evra síðan bankastjórnin ákvað árið 2011 að evran skyldi ekki skráð á minna en 1,20 svissneskan franka til að standa vörð um svissneskan útflutning. Evran hefur lækkað gagnvart dollar og pundi.

Nú eru 522 milljarðar frankar í varasjóði bankans og rúmlega helmingur hans er í evrum en 7,5% í gulli. Í tillögunni sem var felld fólst að seðlabankinn flytti allt gull í eigu sinni til Sviss, 20% af varasjóðnum væri gull og bankinn mætti ekki selja meira gull. Hefði tillagan hlotið samþykki hefði bankinn orðið að kaupa 1.700 lestir af gulli – 70% af árlegri heimsframleiðslu – fyrir um það bil 70 milljarða franka til að ná 20% markinu árið 2019.

Í dag höfnuðu Svisslendingar einnig (74%) tillögu um að setja enn strangari skorður en áður við búsetu innflytjenda í landinu. Var tillagan flutt í nafni umhverfisverndar. Fjölgun fólks reyndi á veika innviði og spillti náttúrunni.

Þriðja tillagan sem var felld í Sviss í dag með 60% atkvæða var um að svipta  5.729 erlenda auðmenn sem samið hafa um skattgreiðslur við yfirvöld í landinu sérréttindum þeirra. Hér er um að ræða um 1 milljarð franka (830 milljónir evra) sem þessir einstaklingar greiða í Sviss til að komast hjá hærri skattgreiðslum í heimalöndum sínum. Vinstrisinnar fluttu tillöguna í nafni jafnréttis en henni var andmælt með þeim rökum að Svisslendingar myndu einfaldlega fara á mis við þessar tekjur með samþykkt hennar og yrðu að greiða hærri skatta sjálfir til að brúa bilið.

Allt eru þetta verðug álitaefni og mikilvægt að fá úr þeim skorið svo að þau séu ekki að þvælast fyrir öðrum viðfangsefnum á borði stjórnenda Sviss. Í íslenskum stjórnmálum eru nokkrir draugar sem ganga aftur hvað eftir annað. Væri vissulega æskilegt að geta kveðið þá niður með þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún krefðist þess að kjósendur kynntu sér málavöxtu og hvaða dilk atkvæði þeirra drægi á eftir sér. Hér skulu nefnd þrjú mál: fiskveiðistjórnun, ákvörðun um virkjanakosti og ESB-málið.