7.9.2013 23:20

Laugardagur 07. 09. 13

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birti í gær í Morgunblaðinu opið bréf með fimmtán spurningum til Roberts Wades prófessors frá London. Wade hefur ásamt dr. Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, núverandi lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, skrifað ýmsar greinar um íslensk málefni eftir hrun í erlend blöð og tímarit. Á sínum tíma vakti til dæmis grein þeirra í Le Monde athygli mína vegna þess hve fullyrðingagjörn hún var og reist á hleypidómum.

Spurningar Hannesar Hólmsteins lúta einmitt að fullyrðingum í þessum greinum. Í grein á Pressunni í gær segir Hannes að hann hafi sótt opna málstofu þann sama dag. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hélt hana með Wade. Þar fékk Hannes góðfúslegt leyfi fundarstjóra til að bera fram eina spurningu við Wade. Hannes spurði:

„Þú [Wade] hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?“

Wade neitaði að svara spurningunni, þetta væri ekki umræðuefni fundarins. Þögn Wades er til marks um að hann og dr. Sigurbjörg fóru út fyrir hófleg mörk í fullyrðingagleði sinni og gættu ekki að grunnreglum um öruggar heimildir. Dr Sigurbjörg hljóp jafnan undir bagga með stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnartíð hennar. Skoðun hennar og Wades á hruninu og afleiðingum þess er flokkspólitísk en ekki fræðileg.