Þriðjudagur 24. 09. 13
Eftir að Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, kynnti Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, sem mannréttindafrömuð sem nyti sérstakrar virðingar meðal erlendra rithöfunda hef ég hlustað á fréttir um stöðu mála í Reykjavíkurborg á annan hátt en áður. Ég hef vakið athygli á Anna Kristinsdóttir, mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar, gat ekki gefið neina haldbæra skýringu í síðustu viku á lokun kaffihússins GÆS sem fólk með þroskahömlun rak í húsakynnum Reykjavíkurborgar.
Í dag má sjá tvær fréttir á ruv.is sem snerta mannréttindamál og Reykjavíkurborg.
Óútskýrður munur er á heildarlaunum kynjanna hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Hann er tíu prósent samkvæmt kjarakönnun félagsins. Má áætla með nokkurri vissu að konur séu með á bilinu fimm til fimmtán prósent lægri heildarlaun en karlar hjá Reykjavíkurborg. Óútskýrður launamunur innan félagsins í var 11,8% á árinu 2012.
Þá er sagt frá því að í raun ríkti „neyðarástand“ í Reykjavík vegna þess hve mörgum yrði að vísa frá gistiskýlinu í Þingholtsstræti í Reykjavík. Skýlið hýsir 20 manns og er „neyðarúrræði“ fyrir heimilislaus karlmenn.
Yfirmaður skýlisins er Þórir Haraldsson hjá Samhjálp, sem rekur gistiskýlið ásamt Reykjavíkurborg. Hann segir við fréttastofu ríkisútvarpsins:
„Allt árið í fyrra þurftum við að vísa frá 24 sinnum. Frávísanirnar í ár eru komnar út úr öllum kortum. Það eru sennilega þrjár vikur síðan við tókum það saman og þá voru þær komnar í 440 og nú eru þær nærri fimm hundruð.
Það er nú kannski ekki mikið sem við getum gert nema að krossa fingur og vona að það verði enginn úti. Ég játa það að maður horfir fram á að það með kvíðboga þegar fer að kólna og gerir vond veður en við höfum í rauninni engin ráð.“
Hvers vegna skyldi enginn spyrja Jón Gnarr um þessa þróun?