1.9.2013 21:00

Sunnudagur 01. 09. 13

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Peer Steinbrück, kanslaraefni jafnaðarmanna, háðu sjónvarpseinvígi í kvöld, hið eina í kosningarbaráttunni sem lýkur eftir þrjár vikur. Fjórir umræðustjórar frá jafnmörgum sjónvarpsstöðvum spurðu frambjóðendurna í 90 mínútur og niðurstaðan er að Angela Merkel sigraði. Þetta sýnir könnun á vegum sjónvarpsstöðvarinnar ZDF. Hjá ARD stöðinni voru áhorfendur hlynntari Steinbrück en Merkel þótt munurinn væri ekki mikill.

Frá mínum bæjardyrum séð hafði Merkel betur en Steinbrück, hann vekur ekki þá tilfinningu að hann sé einlægur eða gefi mikið af sér heldur sé hann kaldlyndur flokkshestur.

Eftir að hafa fylgst með Merkel sigla á milli skerja í evru-skuldakreppunni var forvitnilegt að fylgjast með henni verja árangur sinn í þessum þætti. Henni tókst það á yfirlætisfullan hátt en trú starfsháttum sínum nálgaðist hún ekki kjósendur með hástemmdum loforðum.