Miðvikudagur 04. 09. 13
Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins var sagt frá svikahrappi sem um árabil hefur haft fé af saklausu fólki. Undir lok fréttarinnar sagði: „Samkvæmt heimildum fréttastofu þurfti hann ekki að sitja af sér þann dóm að hluta eða öllu leyti því forseti Íslands náðaði hann.“
Formlega áritar forseti Íslands tillögu um náðun. Hann tekur hins vegar ekki efnislega afstöðu til hennar og ekki heldur ráðherrann sem leggur tillöguna fyrir forseta, hann er bundinn af niðurstöðu þriggja manna nefndar, náðunarnefndar. Ferlinu við náðun er lýst á þennan hátt á vefsíðu innanríkisráðuneytisins:
„Þegar náðunarbeiðni berst ráðuneytinu er Fangelsismálastofnun ríkisins eða innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar tilkynnt um hana og óskað eftir gögnum. Viðkomandi stofnun eru veittar tvær til þrjár vikur til að skila gögnum. Náðunarbeiðnin er síðan send náðunarnefnd sem gerir tillögu til innanríkisráðherra um afgreiðslu málsins. Nefndin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og er málsmeðferð fyrir nefndinni skrifleg. Ef fallist er á náðunarbeiðni er gerð tillaga til forseta Íslands. Ef ekki er fallist á náðunarbeiðni sendir ráðuneytið bréf þar sem synjunin er tilkynnt.“
Sá sem fellst á náðunarbeiðnina er náðunarnefnd. Hún kemst að hinni efnislegu niðurstöðu. Hafi svikahrappurinn verið náðaður á sínum tíma eins og fréttastofan fullyrðir gefur það ekki rétta mynd af málinu að bendla náðunina við forseta Íslands, hann er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, þar á meðal náðunum. Þessi þáttur fréttarinnar ber vott um vanþekkingu, léleg vinnubrögð eða vísvitandi tilraun til að gera undirritun forseta Íslands tortryggilega.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttamenn afflytja mál af þessu tagi af gáleysi eða ásetningi. Það gerðist einnig fyrir nokkrum árum þegar Árni Johnsen fékk uppreist æru og handhafar forsetavalds rituðu undir hana. Þá var afgreiðslan talin til marks um pólitíska spillingu þótt það hefði verið ólögmæt mismunun að verða ekki við ósk lögmanns Árna. Forseti Íslands var erlendis og þess vegna rituðu handhafarnir undir eins og venjulegt er og þykir ekki fréttnæmt hafi fréttamaðurinn ekki óeðlilegt markmið.