30.9.2013 22:55

Mánudagur 30. 09. 13

Þjóðverjar þurfa hugsanlega að bíða fram í janúar 2014 eftir að ný ríkisstjórn setjist að völdum. Angela Merkel ætlar bæði að ræða við jafnaðarmenn og græningja. Hún getur myndað stjórn með hvorum sem er, hana vantar aðeins fimm þingmenn til að hafa hreinan meirihluta í Bundestag, neðri deild þýska þingsins.

Í dag var skýrt frá því að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn, flokkarnir lengst til hægri í Noregi, ætli að mynda minnihlutastjórn undir forsæti Ernu Solberg, formanns Hægriflokksins. Kristilegir og Venstre eru aðilar að samstarfssamningi að baki stjórninni og hafa tryggt framgang nokkurra höfuðmála sinna.

Kosningar voru í Austurríki í gær, stjórnarflokkarnir, stóru flokkar landsins, töpuðu fylgi en hafa enn meirihluta á þingi. Hægriflokkar gagnrýnir á ESB og evru-samstarfið unnu á í kosningunum.

Stjórnarkreppa er á Ítalíu. Í þinginu miðvikudaginn 2. október verður reynir á það hvort meirihluti þingmanna stendur að baki stjórninni. Silvio Berlusconi vill stjórnina feiga en stuðningsmenn hans eru ekki allir á sama mála. Sumir þeirra segja hann aðeins hugsa um eigin hag, leið til að verða ekki sparkað af þingi vegna dóms um skattsvik. Líklegt er að Berlusconi-flokkurinn klofni í atkvæðagreiðslunni á miðvikudag.

Af þessu fernu er stjórnarmyndunin i Noregi sögulegust. Einangrun Framfaraflokksins er lokið eignist hann menn í ríkisstjórn.

Þetta kann að verða fordæmi annars staðar, til dæmis í Danmörku þar sem Danski þjóðarflokkurinn mælist nú stærri en jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra sem á mjög undir högg að sækja. Þá kann stjórnarmyndunin í Noregi einnig að hafa áhrif í Frakklandi þar sem deilt er um hvort rjúfa beri einangrun Þjóðfylkingarinnar, flokks Le Pen-fjölskyldunnar sem leggst gegn evrunni og frjálsri för fólks.

Mest hætta stafar af stjórnarkreppunni á Ítalíu. Hún getur hæglega gert að engu allar vonir um viðsnúning til hins betra á evru-svæðinu.