Mánudagur 23. 09. 13
Angela Merkel gekk ekki til kosninganna í Þýskalandi með langan loforðalista. Þvert á móti var lögð meiri áhersla á fortíðina en framtíðina í kosningabaráttu kristilegra demókrata. Athyglinni var beint að hve vel hefði til tekist við stjórn Þýskalands undir forystu Merkel. Í leiðara franska blaðsins Le Monde um úrslitin í Þýskalandi sagði meðal annars:
„Kanslarinn [Angela Merkel] er betri holdgervingur skoðana þjóðar sinnar en nokkur annar þýskur stjórnmálamaður við upphaf 21. aldar. Heiðarleg, raunsæ og sífellt í leit að samstöðu er hún á sömu bylgjulengd og samborgarar hennar. Hún er hinn dæmigerði fulltrúi miðjustefnu í Þýskalandi þar sem menn þola ekki neitt áreiti öfgamanna – hvorki frá vinstri né hægri. Til allrar hamingju fyrir þjóðina en undantekning í Evrópu!“
Í þýskum fjölmiðlum er Angela Merkel þegar sett í hóp „stóru“ kanslaranna og þar með á bekk hjá Konrad Adenauer, Helmut Schmidt og Helmut Kohl svo að þrír séu nefndir. Hún jók fylgi flokks síns um átta prósentustig á milli kosninga og komst nálægt því að fá hreinan meirihluta í neðri deild þýska þingsins. Bundestag. Árið 1957 tókst Adenauer að fá hreinan meirihluta á þýska þinginu en engum öðrum eftir það.
Yfirbragð þýska kosningasjónvarpsins bar með sér hve vel er að öllu staðið af hálfu Þjóðverja og allt í góðum skorðum auk þess sem menn ræða saman af virðingu og klæðaburður er í samræmi við það. Fréttamenn tveggja stöðva ARD og ZDF ræddu sameiginlega við forystumenn flokka sem fengu menn kjörna á þing í sjónvarpssal að kvöldi kjördags.
Þjóðverjar taka alvarlega hlutverk sitt sem öflugasta þjóð Evrópu. Með því að tryggja Angelu Merkel stórsigur segja þeir öðrum evru-þjóðum að þær skuli ekki vænta þess að dælt verði til þeirra peningum frá Þýskalandi.