19.9.2013 21:30

Fimmtudagur 19. 09. 13

Í morgun flutti Knud Bartels, formaður hermálanefndar NATO, erindi í Norræna húsinu og sagði ég frá því á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.

Í dag efndi Heiðar Guðjónsson til hófs í tilefni af útgáfu bókar sinnar Norðurslóðasókn – Ísland og tækifærin. Þar er brugðið ljósi á breytingar á norðurslóðum og tækifæri Íslands sem miðstöðvar. Þá er lýst kerfisgöllum sem óhjákvæmilegt sé að huga að á íslenskum heimavelli svo að þessi tækifæri nýtist.

Við hlið leiðara í Morgunblaðinu í dag þar sem fundið er að skorti á andspyrnu gegn Jóni Gnarr og félögum í borgarstjórn Reykjavíkur birtist lofgrein um Jón Gnarr eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur bóka- og þjóðfélagsrýni. Hún gefur sér þá forsendu að pólitískir andstæðingar Jóns Gnarrs gefi „hvað eftir annað í skyn að hann sé að sóa dýrmætum tíma með því að leggja svo ríka áherslu á mannréttindi, hann eigi að hafa merkilegri hluti fyrir stafni“. Hvar hefur þessum skoðunum verið haldið á loft?

Síðan segir Kolbrún að í veislu í ráðhúsinu sem Jón Gnarr hélt vegna bókmenntahátíðar og PEN-þings hafi erlendir gestir virst skynja „mannlega og hlýja taug“ borgarstjórans og „samúð með þeim sem eru beittir harðræði og/eða eru minni máttar, […] Erlendu gestirnir virtust skynja þetta og hópuðust til borgarstjóra til að taka í hönd hans og fá tekna af sér mynd með honum. Margar fréttir hafa verið sagðar af hrifningu útlendinga á hinum íslenska borgarstjóra og eftir að hafa orðið vitni að hrifningu og áhuga erlenda bókmenntafólksins þá efast maður ekki um að þær séu hárréttar og alls ekki ýktar“.

Án þess að lítið sé gert úr upplifun Kolbrúnar á nokkurn hátt er þessi lýsing á framkomu gesta í borgarastjóraveislu ekkert einsdæmi. Henni finnst Jón sýna af sér heimsborgarabrag með því að berjast gegn kúgun í stað þess að „skoða fjárhagsáætlanir“. Það hafi „illilega farið fram hjá mörgum íslenskum stjórnmálamönnum“ að mannréttindabarátta snúist um „að gera heiminn betri“. Jón Gnarr hafi „breytt ýmsu í íslenskri pólitík og ruglað þá rækilega í ríminu sem telja að stjórnmálamenn eigi að vera hæfilega miklir kerfiskallar“.

Þegar ég kom að þessu um „kerfiskallana“ datt mér í hug að Kolbrún væri í aðra röndina að gera grín að Jóni Gnarr. Enginn borgarstjóri hefur hlaðið meira undir kerfið en einmitt hann. Í hans tíð hefur skrifstofuveldi borgarinnar orðið einskonar virkisveggur á milli borgarstjóra og borgarbúa. Kerfisvæðinguna má greina á öllum sviðum, hún verður seint flokkuð undir dálæti á mannréttindum.