11.9.2013 22:30

Miðvikudagur 11. 09. 13


Í dag ræddi ég við Einar K. Guðfinnsson, forseta alþingis, í þætti mínum á ÍNN. Næsta útsending samtals okkar er á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Allir sem hafa áhuga á störfum alþingis ættu að hlusta á Einar lýsa hugmyndum sínum um hvað þar megi betur fara.

Það var undarlegt að lesa á Eyjunni að Björg Eva Erlendsdóttir sem situr nú í stjórn ríkisútvarpsins fyrir vinstri græna og hefur stundað fjölmiðlastöf fyrir þá undanfarin ár segir mig sem menntamálaráðherra hafa kallað á hana á heimili mitt að lokinni fréttavakt til að veita henni ákúrur vegna starfa hennar á fréttastofu ríkisútvarpsins á þeim tíma. Þetta er einfaldlega ímyndun hennar. Ég hef aldrei haft húsbóndavald yfir fréttamönnum útvarpsins og aldrei mér hefur aldrei dottið í hug slíkt feilspor að kalla þá á fund heim til mín í því skyni að ræða störf þeirra.

Ef menn slá inn sem leitarorði hér á síðunni nafninu Björg Eva Erlendsdóttir og lesa það sem ég hef sagt frá henni á undanförnum árum sjá þeir að mér hefur þótt margt af því sem hún hefur sagt og gert harla undarlegt. Hinn 18. nóvember 2008 birti ég til dæmis þetta hér á síðunni:

„Björg Eva Erlendsdóttir var meðal annars þingfréttari fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hún sat fyrir svörum á NASA-fundinum í gær og á vefsíðunni Nei segir:

„Björg Eva Erlendsdóttir sagðist ætla að reyna að skýra hvers vegna fjölmiðlar séu ekki sterkari en raun ber vitni. Því miður hafi spillingin náð inn í fjölmiðlana – auðmenn hafi haft afskipti af ritstjórn. „Einn ætlaði að kaupa blað til að leggja það niður,“ sagði hún. „forysta Sjálfstæðisflokksins hefur árum saman haft puttana í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn á Ríkisútvarpinu ár eftir ár, fyrst sjónvarpinu en svo í fréttaflutningi öllum, svo liggur við að fréttastofan hafi orðið málgagn flokksins. Þeir sem ekki tóku þátt voru lagðir í einelti. Sumir hrökkluðust burt en aðrir þrauka þarna enn. Það hefur verið nauðsyn á flokksskírteinum á fréttastofum Sjónvarpsins síðasta áratug. Afskiptunum lauk aldrei.““

Ég skora á Björg Evu að rökstyðja þessa fullyrðingu sína um afskipti Sjálfstæðisflokksins með dæmum, því að þarna gefur hún til kynna að samstarfsmenn hennar hafi starfað sem handbendi Sjálfstæðisflokksins við flutning frétta.“

Í þessum orðum í nóvember 2008 hafði hún fólk fyrir rangri sök eins og hún vegur nú að mér án þess að færa nokkrar sönnur á mál sitt.