14.9.2013 22:50

Laugardagur 14. 09. 13

Þess er minnst um þessar mundir að á árinu 2007 spáði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, að Norður-Íshafið yrði íslaust árið 2013. Þegar hann tók við friðarverðlaunum Nóbels 10. desember 2007 vitnaði Gore í bandaríska loftslagsfræðinginn Wieslaw Maslowski sem hafði spáð að sumarísinn á norðurskauti mundi „hverfa með öllu“ árið 2013 vegna hlýnunar jarðar af völdum útblásturs kolefnis.

Nú mæla gervitungl meiri ísbreiðu á Norður-Íshafi en nokkru sinni síðan 2006. Séu bornar saman myndir teknar í ágúst 2012 og ágúst 2013 sýna myndir í ár um 60% meiri útbreiðslu íss en í fyrra. Þá segir í fréttum að ekki sé unnt að sigla norðvesturleiðina, það er fyrir norðan Kanada, í ár vegna þess hve ísinn er þykkur.

Nýlega birti BBC frétt um að útbreiðsla íssins segði ekki alla söguna. Gervitungl hefðu í þrjú ár mælt þykkt íssins og þiðnaði hann jafnt og þétt á Norður-Íshafi sem mundi leiða til samdráttar hans áður en langt um liði.

Þessar fréttir segja það eitt að enginn getur fullyrt með nokkurri vissu hvernig ísinn hagar sér. Í jarðsögulegu tilliti ná mælingar til svo skamms tíma að þær segja í raun ekki annað en túlkendur upplýsinganna ákveða hverju sinni. Þeir vita að dramatískar lýsingar á framtíðinni eiga greiðasta leið í fjölmiðla.