10.9.2013 22:20

Þriðjudagur 10. 09. 13

Það hefur verið spennandi og fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni frá því í gær þegar John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði eins og í framhjáhlaupi á blaðamannafundi í London að samþykktu Sýrlandsstjórn að láta öll efnavopn sín af hendi kynni það að koma í veg fyrir hefndarárás Bandaríkjamanna fyrir efnavopnaárásina 21. ágúst sem varð 1429 manns að bana. Um svipað leyti og talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að Kerry hefði bara viljað vekja máls á þessu til að skapa umræður bárust fréttir frá Moskvu um að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefði breytt lauslegri hugmynd í tillögu og utanríkisráðherra Sýrlands litist vel á hana. Síðan tóku Angela Merkel og David Cameron í sama streng og um kvöldið var Barack Obama kominn í hóp þeirra sem vildu kanna málið til hlítar.

Bæði Vladimir Pútín og Barack Obama hafa hag af umræðum um tillöguna og að þessi leið verði farin til að refsa fyrir efnavopnaárásina. Pútín tekst með þessu að skipa Rússlandi við hlið Bandaríkjanna sem áhrifaríki á alþjóðavettvangi, ríki sem hafi alþjóðlegan slagkraft. Þetta var á sínum tíma æðsti draumur sovéskra ráðamanna. Obama gefst tækifæri til að skapa sér svigrúm í stöðu sem benti til að hann kynni að verða undir á Bandaríkjaþingi vegna Sýrlandsmálsins.

Menn hafa velt fyrir sér hvort atburðarásin hafi verið eftir handriti eða leikin af fingrum fram. Ég hallast að síðari skoðuninni. Þótt menn hafi rætt um þessa leið eins og Rússar segja að Pútín hafi gert við Obama í St. Pétursborg ber framvinda málsins með sér að leikið sé af fingrum fram fyrir opnum tjöldum.

Þessi atburðarás öll vegna efnavopnanna verður örugglega tekin sem skólabókardæmi í alþjóðastjórnmálum þar sem gífurlega mikið er í húfi í ákaflega flókinni stöðu. Besta nýting á herafla fæst ef hótun um að beita honum leiðir til nýrrar og betri stöðu. Hefur það ekki gerst hér? Hitt er síðan óvíst hvort sá sem hótar fær umboð á heimavelli til að láta til skarar skríða ef á þarf að halda.