28.9.2013 23:55

Laugardagur 28. 09. 13

Undanfarin ár hafa fréttir um siglingar flutningaskipa í norðurhöfum snúist um ferðir þeirra fyrir norðan Rússland, norðausturleiðina svonefndu. Tugir skipa hafa siglt leiðina hvert sumar í fáein ár. Öðru máli gegnir um norðvesturleiðina fyrir norðan Kanada.

Í september 1969 sigldi bandaríska skipið Manhattan frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Það var olíuskip sem hafði verið styrkt sem ísbrjótur. Tilgangurinn var að flytja olíu frá Alaska til Mexíkóflóa. Eftir tvær ferðir skipsins var fallið frá öllum slíkum áformum og lögð olíuleiðsla um Kanada til Bandaríkjanna.

Frásagnir af Manhattan settu mikinn svip á fréttir á sínum tíma. Minna fer fyrir fréttum núna af siglingu flutningaskipsins Nordic Orion um norðvesturleiðina. Það er á leiðinni með kol frá Vancouver í Kanada til Pori í Finnlandi. Skipafélagið Nordic Bulk Carriers í Danmörku á skipið sem er 73.700 lestir, 225 metra langt, smíðað í Japan árið 2011 og skráð i Panama.

Sé nafn skipsins slegið inn á Google má sjá hvar það er statt. Fyrir tveimur dögum var það undan vesturströnd Grænlands skammt frá höfuðborginni Nuuk. Það er því komið í gegnum ísinn og er á leiðinni suður fyrir Grænland og þaðan tekur það stefnu til Finnlands. Hve nærri það siglir Íslandi er óljóst.

Fréttir af Nordic Orion hafa birst á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.