Sunnudagur 22. 09. 13
Veðrið var gott í Fljótshlíðarréttum í dag. Eyjafjallajökull gnæfði í austri, skjannahvítur og fegurri en þegar askan setti svip á hann. Á dögunum snjóaði til fjalla og Þríhyrningur var hvítur niður í miðjar hlíðar en nú er snjórinn á brott. Það gekk greiðlega að draga féð enda lögðu margir leið sína í réttirnar.
Angela Merkel vann stórsigur í þingkosningunum í dag. Flokkur hennar jók fylgi sitt um 8% og var henni jafnvel spáð hreinum meirihluta á þinginu í Berlín. Þegar þetta er skrifað er henni spáð 301 þingmanni af 606 (þarf 304 til að mynda meirihluta). Hún talaði af þungri alvöru um áhrif úrslitanna í sjónvarpsþætti með öðrum forystumönnum flokka sem fengu kjörna þingmenn. Hún fagnaði sigri af mikilli varúð vegna framtíðarinnar, megi orða það svo.
Að líkindum kemur til skipta á forystumönnum í tveimur þýskum stjórnmálaflokkum eftir kosningarnar. Peer Steinbrück varð kanslaraefni jafnaðarmanna fyrir um það bil einu ári en honum tókst ekki að rétta hlut flokks síns sem hefur tapað fyrir Merkel þrisvar í röð. Samstarfsflokkur Merkel, FDP, hlaut verstu útreið í sögu sinni og engan þingmann. Rainer Brüderle var í forystu FDP í kosningabaráttunni og líklegt er hann og Philipp Rösler flokksformaður verði að víkja.