15.9.2013 22:55

Sunnudagur 15. 09. 13

Miðað við andstöðuna við flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni er einkennilegt að enginn stjórnmálamaður sem hyggst leita eftir stuðningi í kosningunum 2014 skuli ganga fram fyrir skjöldu og lýsa eindreginni andstöðu við aðalskipulagið sem nú er á döfinni. Engu er líkara en á þessu kjörtímabili hafi tekist að breyta borgarstjórn í hluta af skrifstofuveldi borgarinnar í stað þess að þar takist menn á um ólík sjónarmið á þann veg að skýrist fyrir borgarbúum hvaða kostir eru í stöðunni.

Nú eru brátt 20 ár liðin frá því að R-listinn kom til sögunnar og sjálfstæðismenn misstu meirihluta sinn í Reykjavík. Síðan hafa meira og minna sömu málin verið á döfinni án þess að nokkur afgerandi afstaða hafi verið tekinn af stjórnendum borgarinnar. Fyrir um það bil tólf árum var látið eins og ákvörðun væri tekin í málefnum flugvallarins í atkvæðagreiðslu sem reyndist ekki annað en tilraun til að komast hjá að taka ákvörðun. Þá var Sundabraut einnig á döfinni og látið eins og allt færi í óefni yrði ekki ráðist í lagningu hennar alveg á næstu árum, Deilurnar stóðu meðal annars um hvort gera ætti brú yfir Elliðavoginn úr Sundahöfn eða ekki.

Þá var varað við að stefnt væri í óefni með því ráðslagi sem ríkti í Orkuveitu Reykjavíkur og einkenndist annars vegar af stórmennsku og hins vegar minnimáttarkennd gagnvart Landsvirkjun. Enn þann dag í dag hefur ekki verið undið ofan af röngum ákvörðunum sem teknar voru í málefnum orkuveitunnar og reynast dýrkeyptar.

Það er í samræmi við þessa þróun alla að nú skuli sitja borgarstjóri í Reykjavík, Jón Gnarr, sem forðast hin raunverulegu verkefni borgarstjóra en beitir sér í málum eins og banni við að herskip komi til Reykjavíkurhafnar og veikir mjög málstað þeirra sem vilja efla öryggi sjófarenda í norðurhöfum með því að gera Ísland að miðstöð leitar og björgunar.