27.9.2013 21:20

Föstudagur 27. 09. 13

Þóra Arnórsdóttir fór fram úr sjálfri sér þegar hún ræddi við Franklin Graham í Kastljósi kvöldsins. Í fyrsta lagi hefði hún átt að sjá miklu fyrr í þættinum að hún fengi ekki þokað Graham þótt hún skellti því á hann hvað eftir annað að íslenska þjóðin væri ekki á sama máli og hann. Í öðru lagi gekk hún of langt sem sjálfskipaður talsmaður þjóðarinnar andspænis viðmælanda sínum. Í þriðja prédikaði hún sjálf of mikið og lengi. Hafi ætlun hennar verið að koma höggi á Graham var það vindhögg.

Strax að loknu Kastljósi birtist Þóra í Útsvari sem hefur tekið á sig nýja mynd. Það er mikill vandi að halda lífi í þætti sem þessum. Breytingin er ekki til batnaðar. Að stjórnendur sjónvarpsins feli starfsmönnum sínum að vera í hlutverki Þóru í Kastljósi og stjórna síðan spurningarþætti er umhugsunarefni. Þóra og Sigmar Guðmundsson njóta sín illa í þættinum af því að spurningarnar eru leiðinlegar og þátturinn gefur ekki færi á miklum tilþrifum.

Í dag var efnt til málþings um tengsl Íslands og NATO á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ, Nexus, rannsóknavettvangs um öryggismál, og Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns. Málþingið var vel sótt. Sérstaklega var fróðlegt að hlusta á erindi um hvernig tengsl Íslands og NATO hafa þróast og hve mikilvægu hlutverki Landhelgisgæsla Íslands gegnir í því tilliti. Þetta á bæði við um verkefni tengd loftrýmisgæslu og aðgerðir á sjó eða við sprengjueyðingu.