26.9.2013 22:00

Fimmtudagur 26. 09. 13

Tónlistar- og ráðstefnuhús Reykjavíkur, Harpa, vann til verðlauna sem besta opinbera menningarbyggingin á árlegri verðlaunahátíð alþjóðlegra samtaka arkitekta í Evrópu (LEAF) segir í Morgunblaðinu í dag. Stofnað var til verðlaunanna, sem nefnast The Emirates Glass LEAF Awards árið 2001 og eru þau veitt á hverju ári arkitektum sem hafa nýjungar og framsækni að leiðarljósi í sinni hönnun. Verðlaunaðar eru byggingar þar sem hönnunin er talin marka þáttaskil í byggingarlist komandi kynslóða. Alls voru 52 verkefni tilnefnd til verðlauna í 16 flokkum. Í dómnefnd sitja nokkrir af virtustu arkitektum Evrópu.

 

Í umsögn dómnefndar segir að Harpa sé sláandi bygging sem umbreyti og blási nýju lífi í Reykjavíkurhöfn, auk þess að skapa nýja tengingu milli hafnar og borgar. Glerhjúpur Ólafs Elíassonar, sem innblásinn sé af íslensku landslagi, endurkasti birtu frá borgarljósunum, hafi og himni á heillandi hátt.

Ástæða er að staldra sérstaklega við síðustu setninguna í fréttinni um endurkast birtunnar. Frá því að þeir sem verðlaunin veittu skoðuðu Hörpu hefur verslun tekið til starfa í því horni hússins sem snýr að Ingólfsgarði og Sæbraut. Þar sést ekki aðeins varningur inn um glugga heldur er lampi í horni hússins sem raskar öllu endurkasti. Verslunin spillir með öðrum orðum glerhjúpnum – ætli Ólafur Elíasson eða arkitektar hússins hafi samþykkt þetta?