3.9.2013 23:30

Þriðjudagur 03. 09. 13

Í kvöld hófst rússneskur vetur í Kvikmyndasafni Íslands í Bæjarbíói í Hafnarfirði með sýningu á fyrsta hluta kvikmyndar frá 1969, stórmyndarinnar Karamazov-bræðurnir eftir samnefndu meistaraverki Fjodors Dostojevskíjs. Kvikmyndasafnið hefur látið þýða myndina af þessu tilefni og er hún sýnd með íslenskum neðanmálstexta.

Það var gaman að koma í Bæjarbíó og er ómetanlegt að kvikmyndsafnið hafi þessa aðstöðu. Yrði skaði ef salurinn yrði tekinn af safninu til annarrar notkunar.

Kvikmyndin sem sýnd var í kvöld er sígilt listaverk.

Furðulegar eru upphrópanir manna um að svipta eigi þjóðina menningarstofnunum við forgangsröðun ríkisútgjalda. Þeir sem þannig tala átta sig ekki á að þessar stofnanir eru hluti gæða sem stuðla að vellíðan og þar með betri og meiri árangri í daglegum störfum. Að meta þennan hluta mannlífsins til fjár er ekki á allra færi.