29.9.2013 23:30

Sunnudagur 29. 09. 13

Atli Rafn Sigurðarson sýnir mikil tilþrif í Englum alheimsins í Þjóðleikhúsinu. Leikgerðin er vel heppnuð og leikstjórnin öguð, aldrei er farið út fyrir hófleg mörk. Mögnuð sýning gerð úr einstæðum efniviði frá Einari Má Guðmundssyni. Ég kynntist sögupersónuninni lítillega þegar ég vann á Morgunblaðinu á sínum tíma. Hann kom stundum með efni þangað og tókum við vinsamlegt tal saman.

Í tíu fréttunum í kvöld heyrði ég loks sagt frá siglingu skipsins Nordic Orion norðvesturleiðina . Er ánægjulegt að á fréttastofu ríkisútvarpsins skuli vera einhver sem telur þetta fréttnæma siglingu. Eins og ég gat um hér á síðunni í gær er hún í raun einstæð.

Vegna komandi fjárlaga segir fréttastofa ríkisútvarpsins ekki lengur fréttir í tíma klukkan 18.00 heldur eru raktar raunir þeirra sem telja að of langt verði gengið í aðhaldi í fjárlögunum. Fréttastofan leggur sig fram um að mála skrattann á vegginn. Enginn veit í raun í hvaða mynd hann birtist í fjárlagafrumvarpinu. Þá er jafnframt minnt á hver hafi verið kosningaloforð Framsóknarflokksins og jafnframt vitnað í Vigdísi Hauksdóttur, framsóknarkonuna í formennsku fjárlaganefndar alþingis.

Undir niðri er verið að búa hlustendur fréttastofunnar undir loforðasvik framsóknarmanna og einkum Vigdísar Hauksdóttur. Fréttastofunni er sérstaklega í nöp við Vigdísi af tveimur ástæðum: Hún er á móti ESB, hún fer óvirðulegum orðum um ríkisútvarpið. Fólk í þessari skúffu á ekki upp á pallborð stjórnenda fréttastofu ríkisútvarpsins, um það er  þagað þegar ekki er reynt að gera það tortryggilegt.