18.9.2013 22:00

Miðvikudagur 18. 09. 13

Í dag kom út nýtt hefti að tímaritinu Þjóðmálum, fyrsta hefti tíunda árgangs. Ég hef lagt tímaritinu lið frá fyrsta hefti þess og birt þar margar greinar um stjórnmál auk umsagna um bækur. Nú skrifa ég um bókina Ísland ehf. Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir Þjóðmálum af metnaðí og þrautseigju. Í þessu hefti brýnir hann sjálfstæðismenn í Reykjavík til að vanda val á frambjóðendum til borgarstjórnar en ekki láta klíkur innan flokksins í höfuðborginni ráða ferðinni.

Hér má fræðast um þetta hefti Þjóðmála.

Tilkynnt var í dag að Seðlabanki Bandaríkjanna (Fed) mundi halda áfram að prenta 85 milljarða dollara á mánuði eins og hann hefur gert síðan í september 2012 til að styðja við bakið á bandarísku efnahagslífi. Á hverjum mánuði kaupir bankinn veðskuldabréf (Mortgage-Backed Security eða MBS) fyrir 40 milljarða dollara og ríkisskuldabréf fyrir 45 milljarða dollara. Aðgerðin eykur peningamagn í umferð og er henni ætlað að koma í veg fyrir skort á reiðufé á tímum kreppu. Með því að spýta þessum peningum inn í bankana auðveldar það þeim að lána fé á lágum vöxtum til heimila og fyrirtækja og stuðla þannig að neyslu og fjárfestingu.

Áður en tilkynningin barst í dag væntu þess flestir að Fed mundi draga saman seglin og minnka það sem á ensku er kallað Quantitative easingþar sem bankamönnum, hagfræðingum og stjórnmálamönnum finnst ekki við hæfi að lýsa fyrirbærinu sem peningaprentun. Stefna seðlabankans í Bandaríkjunum fellur ekki að skoðunum þýskra ráðamanna sem eiga síðasta orðið um stefnuna á evru-svæðinu. Þjóðverjar óttast afleiðingar of mikils peningamagns í umferð, verðbólguna, af dýrkeyptri reynslu millistríðsáranna.

Óvenjulegar efnahagsaðstæður ríkja í heiminum og ekki sést enn fyrir endann á þeim. Hér á landi halda stjórnvöld að sér höndum í skjóli hafta og skilin á milli þess sem var í tíð tæru vinstri stjórnarinnar og þess sem við skyldi taka með nýrri ríkisstjórn að kosningum loknum eru of óljós til að átta sig á að ný stjórn hafi tekið upp nýja stefnu þótt væntingar standi að sjálfsögðu til að hún hafi gert það.