12.8.2012 22:41

Sunnudagur 12. 08. 12

Í The Sunday Telegraph í London birtist grein í dag um Ólympíuleikana og kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið mestu „greatest“ leikar sögunnar fyrir utan að vera „greatest“ leikar Breta sjálfra vegna þess hve mörg þeir gull keppendur þeirra hlutu og að þeir skyldu verða með þriðju flestu gullverðlaun á leikunum, 29, á eftir Bandaríkjunum (46), Kína (39). Bandaríkjamenn fengu flest verðlaun í London: 104, Kínverjar 87, Rússar 82 (24 gull) og Bretar 65. Þjóðverjar voru í fimmta sæti með 11 gull og 44 verðlaun alls.

Hinn virti dálkahöfundur Charles Moore sem hafði allt á hornum sér vegna leikanna áður en þeir hófust leggur undir lok þeirra út af þeim á þann veg að þeir hafi stóreflt þjóðarstolt Breta og hljóti að sanna þeim að hver sé sinnar gæfu smiður og þeir njóti sín best á eigin forsendum en ekki í hafti yfirþjóðlegs valds.

Bretum er óskað til hamingju með hve vel hefur til tekist og að sigrast hafi verið á öllum hrakspám um að leikarnir færu á einn eða annað hátt í handaskolum. Athafnirnar í upphafi og lok leikanna voru einstæðar að fjölbreytileika og allri útfærslu.

Íslensku fulltrúarnir stóðu sig með ágætum, þau eru jákvæðar og góðar fyrirmyndir eins og sjá mátti í sjónvarpinu í kvöld. Loks tek ég undir með Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 11. ágúst:

„Það er mikil og góð skemmtun að fylgjast með Sigurbirni Árna Arngrímssyni lýsa keppni í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum.

Sigurbjörn er maður að mínu skapi því hann er óhræddur við að vera hann sjálfur. Ef hann gerir mistök, sem er auðvitað óumflýjanlegt í vandasömum lýsingum, þá viðurkennir hann það fúslega og heldur bara áfram.

Sigurbjörn Árni er mikill karakter og hann er skemmtilegur og ekki síst þess vegna kemst hann upp með að gera mistök í lýsingum sínum.

Sigurbjörn Árni er tilfinningamaður og í hita leiksins á hann til að hrópa og kalla svo glymur í sjónvarpstækinu.

Af íslensku þátttakendunum á Ólympíuleikunum finnst mér Sigurbjörn Árni hafa staðið sig best.“