25.8.2012 19:20

Laugardagur 25. 08. 12

Fyrir réttum tveimur vikum tóku stjórnmálafréttir ríkisútvarpsins kipp og settu svip sinn á þjóðmálaumræðurnar af því að fréttamenn spurðu stjórnmálamenn efnislegra spurninga um eitthvað sem máli skiptir. Ráðherrar og þingmenn VG svöruðu málefnalegum spurningum um ESB-málið. Þá hefur fréttastofa ríkisútvarpsins einnig dögum saman sagt frá deilum forseta Íslands og forsætisráðherra um hlutverk eða hlutskipti handhafa forsetavalds. Nú stendur það mál þannig að þau deila um hve mörg hundruð þúsund krónur Jóhanna fær fyrir að hlaupa í skarðið fyrir Ólaf Ragnar án þess að fara út á flugvöll til að kveðja hann.

Í dag og í gær hafa stjórnarflokkarnir VG og Samfylking efnt til funda í æðstu stofnunum sínum á milli landsfunda. Þá bregður svo við að fréttir ríkisútvarpsins verða málefnalega geldar og taka að snúast um að Jóhanna Sigurðardóttir ætli að bæta álit alþingis út á við með því að semja við stjórnarandstöðuna. Öllum er þó ljóst nema líklega fréttastofu RÚV að Jóhanna er upphaf og endir allrar þrætu á þinginu með yfirgangi sínum og frekju.  Hver á von á að það breytist fyrir kosningar? Gott ef Jóhanna ætlar ekki að stytta ræðutíma á þingi til að ná málum fram. Hverjum dettur í hug að slíkt gerist á kosningaþingi? Fréttamanni ríkisútvarpsins?

Jóhanna Sigurðardóttir segir að ekki sé víst að hún gefi kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum sem þýðir að sjálfsögðu að hún íhugi að hætta. Þegar flokksformaður og forsætisráðherra talar á þann veg eru pólískir dagar hans taldir. Nema Jóhanna fái sinn Baldur og Guðna til að hvetja sig til að halda áfram. Eru líkur á því?

Stjórnmálafréttar ríkisútvarpsins eru í anda fréttatilkynninga stjórnarflokkanna þegar sagt er frá þessum funda þeirra, ekki hin minnsta tilraun gerð til að auðvelda áheyrendum að átta sig á  stöðu mála. Augljóst er að gjá breikkar milli flokkanna í ESB-málum og efasemdir eru um hvort forystumenn þeirra leiði þá í kosningabaráttunni.

Hið eina fréttnæma í ríkisútvarpinu var spurningin til Steingríms J. Sigfússonar um hvort hann sé á förum úr pólitíkinni sem hann taldi af og frá. Ekki hefði verið spurt að tilefnislausu? Skyldi það hafa verið einhver úr VG eða Samfylkingunni sem ýtti undir spurninguna?