20.8.2012 23:05

Mánudagur 20. 08. 12


Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um þrjú mál þar sem ég tel að Ögmundur Jónasson sé á röngu róli auk þess sem ég fjalla um grein Skúla Helgasonar sem birtist á dv.is.

Í kvöld má lesa á ruv.is að Steingrímur J. Sigfússon hafi skrifað pistil á vefsíðu breska blaðsins The Financial Times  að íslenska leiðin vegna hruns fjármálakerfisins hafi verið erfið en hún geti þó verið góður leiðarvísir fyrir aðrar þjóðir sem leita nú lausna við efnahagskreppunni.

Á ruv.is segir:

„Þetta kemur fram í pistli sem Steingrímur J. Sigfússon, skrifar á vef fjármálatímaritsins (svo!) Financial Times. Þar hvetur hann þjóðarleiðtoga til að kynna sér hvernig íslenskur efnahagur hefur náð sér á strik eftir algjört efnahagshrun. Steingrímur segir að neyðarlögin, sem voru lögð fram á sínum tíma af ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leikið lykilhlutverk í uppgangi Íslands.“

Skyldi Steingrímur J. geta þess í pistlinum að hann sat hjá við atkvæðagreiðslu um neyðarlögin á þingi mánudagskvöldið 6. október 2008? Frá því er skýrir fréttastofa ríkisútvarpsins ekki.

Þá er spurning hvort Steingrímur J. ráðleggi annarra þjóða mönnum að draga þá ráðherra fyrir dóm sem hafa ekki aðeins staðið varnarlausir gagnvart fjármálahruni heldur einnig ráðalausir eftir að það verður.

Steingrímur J. hefur dundað sér við að skrifa pistil fyrir vefsíðu The Financial Times á meðan hann var í fríi í Frakklandi og vildi ekki svara fyrirspurnum íslenskra fjölmiðla um ESB-uppnámið í eigin flokki og milli stjórnarflokkanna.