10.8.2012 18:20

Föstudagur 10. 08. 12

Þegar ekið er í gegnum Selfoss er þar lítið blátt skilti við veginn frá Nettó en verslunin var nýlega opnuð þar sem Bónus var áður til húsa. Á skiltinu stendur orðið „Open“ og síðan tölur sem sína tímasetningu. Hvers vegna stendur ekki einfaldlega „Opið“? Halda menn hjá Nettó að útlendingar skilji það orð ekki þegar verslun á í hlut og birtar eru tölur sem sýna klukkustundir? Þótt margir ferðamenn á Íslandi komi frá enskumælandi löndum eru það síður en svo allir, íslenska er því bæði eðlilegra og hlutlausara mál þegar kynntur er afgreiðslutími verslunar með einu sagnorði.

Á verslunarhurðum í Færeyjum standa orðin: „Opið er:“ og síðan klukkustundir. Þetta fellur mun betur að íslenskri tungu en hið leiðigjarna orðskrípi: „opnunartími“. Ef menn vilja endilega nota nafnorð, hvers vegna ekki „afgreiðslutími“? Hátíð er sett og þess vegna er eðlilegra að tala um setningarathöfn hátíðar en „opnunarhátíð“, hið sama í við um íþróttaviðburði, setningarathöfn Ólympíuleikanna á betur við en „opnunarhátíð“. Ólympíuleikunum lýkur með lokahátíð en ekki „lokunarhátíð“.

Í fréttabréfi frá Júpiter rekstrarfélagi ehf. sem kom út 9. ágúst segir meðal annars:

„Ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöft væri heildarafkoma ríkissjóðs að sama skapi umtalsvert verri en raunin er, en tilvist haftanna hefur haldið fjármagnskostnaði ríkisins talsvert lægri en annars hefði orðið. Óhætt er að halda þessu fram þrátt fyrir orð æðsta stjórnanda Seðlabanka Íslands um að íslenski ríkisskuldabréfamarkaðurinn hafi upp á heimsins bestu ávöxtun að bjóða.“

Gjaldeyrishöftin þrengja fjárfestingakosti íslenskra lífeyrissjóða og kalla hættu yfir eigendur sjóðanna, alla landsmenn. Gjaldeyrishöftin fæla erlenda fjárfesta frá að koma til landsins. Þeir óttast að geta ekki náð eignum úr landi flytji þeir þær hingað. Gjaldeyrishöftin áttu að vera til skamms tíma, nú spá sumir að þau verði að minnsta kosti til 2015. Vinstri-grænir vilja halda í höftin til að geta handstýrt atvinnulífinu og sett einkaframtaki hömlur. Samfylkingin vill halda í höftin til að geta notað þau í ESB-áróðri sínum. Gjaldeyrishöftin leiða til blekkinga við uppgjör á ríkissjóði. Þau nýtast Seðlabanka Íslands til að stunda blekkingarstarf um íslenska ríkisskuldabréfamarkaðinn.

Krónan hefur styrkst. Peningar streyma út af evru-svæðinu af ótta um örlög hennar. Hvers vegna skyldu eigendur íslenskra króna keppast við að flytja þær úr landi ef höftin yrðu afnumin? Málið snýst um pólitískt hugrekki í krafti fastmótaðrar stefnu. Höftin verða því við lýði á meðan Jóhanna og Steingrímur J. sitja við stjórnvölinn.