19.8.2012 19:45

Sunnudagur 19. 08. 12

Framhaldsskólarnir hefjast í vikunni af því tilefni ræddi ég við Atla Harðarson, skólameistara Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) í þætti mínum á ÍNN miðvikudaginn 15. ágúst og nú má sjá þáttinn hér.

Að Russell Crowe og Patti Smith hafi tekið lagið saman á tveimur stöðum, X-inu 977og KEX hostel, í Reykjavík á menningarnótt verður örugglega fært í annála víðar en hér á landi. Patti Smith (f. 1946) er meðal goðsagna í rokkheiminum og kölluð guðmóðir punksins með því að fella saman rokk og ljóðlist. Á Wikipediu segir að þekktasta lag hennar sé Because the Night sem hún samdi með Bruce Springsteen árið 1978. Hún hefur verið heiðruð vegna framlags síns til tónlistar en einnig fyrir ritstörf sín. Hún fetar í fótspor Bobs Dylans með ævisögunni Just Kids og fékki verðlaun bandarískra bóksala, National Book Award, árið 2010.

Þau Patti Smith og Russell Crowe sungu einmitt saman lagið fræga Because the Night og má sjá þau hér á X-inu 977.

Það er annar blær yfir Russell Crowe hér á landi en Tom Cruise. Umstangið í kringum Cruise er í hróplegri andstöðu við allt hjá Crowe  sem fer ferða sinna án þess að vera umkringdur öryggisvörðum. Hann hefur hjólað hér um Rangárvellina en Cruise lét þyrlu flytja sig og hafði sérstakt fjórhjól með í för þegar hann fór inn að Emstrum.