9.8.2012 21:10

Fimmtudagur 09. 08. 12

Nú er unnt að sjá viðtal mitt við Halldór Árnason á ÍNN 1. ágúst á netinu og er það hér. Við ræðum um opinber fjármál leiðir til að ná þeim undir skynsamlega stjórn. Skera verður niður fjármagnskostnað sem er nú meiri á ári en framlög til menntamála og minnkar ekki miðað við fjárlagastefnu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau ætla enn að auka opinber útgjöld fyrir lánsfé. Þá hefur ríkisútvarpið kynnt áform um margföldun virðisaukaskatts á gistingu með þeim rökum að hann snerti ekki Íslendinga af því að útlendingar greiði hann! Þaulvanur fréttamaður las þennan boðskap yfir hlustendum í hádegi miðvikudags 8. ágúst.

Afstaða þeirra sem hlakka yfir halla á rekstri Hörpu og láta eins og að með honum styrkist málstaður þeirra gegn mannvirkinu minnir á andstæðinga Ólympíuleikanna í Bretlandi. Ef hin þröngsýna afstaða gegn framlagi hins opinbera til mannvirkjagerðar réði væru engir Ólympíuleikar. Breskir gagnrýnendur leikanna í London fara sér hægar en ella um þessar mundir vegna hins glæsilega árangurs bresku íþróttamannanna. Nöldrið yfir leikunum mun þó áfram setja svip á málflutning þeirra sem sætta sig ekki við þá. Þeir eiga örugglega eftir að fá einhver neikvæð tíðindi sem gleðja þá og þeir munu nýta þau til að árétta skoðun sína.

Nýjasta hefti hins alþjóðlega tónlistartímarits Gramophone fylgir myndskreytt frásögn á netinu um Hörpu - The magnificent Harpa Hall, Reykjavík - og má sjá hana hér. Í fréttum hefur verið fjallað um nauðsyn þess að fjölga ferðamönnum hér á landi sem skilji meira fé eftir í landinu og til þess að ná til þeirra þurfi að festa fé í mannvirkjum sem hafi aðdráttarafl fyrir þetta fólk. Harpan er slíkt mannvirki. Finna verður leið til að reka hana á hagkvæmari hátt en gert hefur verið á vegum átta stjórna á fyrsta starfsárinu.