31.8.2012

Glæsilegu flokksþingi repúblíkana lokið

Forvitnilegt er fyrir áhugamenn um stjórnmál að fylgjast með flokksþingum repúblíkana og demókrata og hvernig fjallað er um þau í fjölmiðlum. Nálgast má allar ræður á þingunum á netinu.

Flokksþingi repúblíkana í Tampa í Flórída lauk í gærkvöldi, fimmtudaginn 30. ágúst, á ræðu Mitts Romneys, forsetaefnis þeirra. Ræður manna á þinginu miðuðu að því að draga upp þá mynd af Romney sem talin er falla bandarískum kjósendum best í geð. Var meistaralega vel að því staðið að taka á öllum áróðurspunktum demókrata gegn forsetaefninu, snúa þeim Romney í hag og senda allt hið neikvæða til föðurhúsanna. Þá var þess vandlega gætt að vega ekki of hart að Barack Obama til að vekja ekki með honum óverðskuldaða samúð.

Einn ræðumanna skar sig úr, hinn 82 ára gamli Clint Eastwood, leikari og leikstjóri, sem var leynigestur skömmu áður en Romney flutti ræðu sína. Uppnámið sem framganga Eastwoods hefur valdið meðal demókrata og strax morguninn eftir hjá Obama sjálfum sannar hve vel Eastwood tókst að espa andstæðinga repúblíkana. Hann talaði blaðalaust og hafði auðan stól við hlið sér þar sem hann sagði að Obama sæti og vék stundum að honum orði. Þarna var meistari á ferð sem lék sér að viðfangsefninu og hafði salinn á valdi sínu þótt spunaliðarnir væru á nálum af því að þeir höfðu ekki séð neitt handrit.

The New York Times er eindregið andvígt Romney, gerir lítið úr Clint Eastwood og ræðst harkalega á allt sem sagt hefur verið í Tampa í leiðurum. Smitar andúðin á Romney jafnvel fréttir blaðsins og frásagnir á netinu. Umfjöllunin sýnir hve fráleitt er að halda því fram að blaðið sé „hafið yfir“ flokkadrætti. Þegar á þarf að halda breytist það í blað til stuðnings þeim sem það vill að sigri á stjórnmálavettvangi, kannski má kalla það flokksblað í þeim skilningi.

Sjónvarpsstöðin Fox News leggur repúblíkönum eindregið lið og hljóta allir áhugamenn um fjölmiðlun að dást að því hvernig staðið var að því af hálfu stöðvarinnar að draga upp jákvæða mynd af öllu sem gerðist í Tampa. Stöðin er langvinsælasta sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum og hljóta repúblíkanar að fagna stuðningi hennar. Það er styrkur stöðvarinnar að hún læst ekki vera óhlutdræg eins og aðrar sjónvarpsstöðvar. Verður spennandi að sjá hvernig hún tekur á flokksþingi demókrata í Charlotte í Norður-Karólínu í næstu viku.

Ég hef aldrei setið flokksþing í Bandaríkjunm. Það hlýtur að vera álíka mikið ævintýri fyrir stjórnmálamenn eða áhugamenn um stjórnmál að fá tækifæri til þess eins og fyrir íþróttamenn eða áhugamenn um íþróttir að sækja Ólympíuleikana.

Á vefsíðum er sagt frá því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, hafi verið í Tampa og fylgst með flokksþinginu. Hún segir á fésbókarsíðu sinni 31. ágúst að hún hafi einnig tekið þar þátt í fundum International Democratic Union (IDU), alþjóðasamtökum mið- og hægriflokka. Þá segir hún:

„Kaninn kann svo sannarlega að „put on a show“ svo maður sletti aðeins, en ég er ansi hrædd um að hinn almenni sjálfstæðismaður yrði ekki glaður með svona landsfund þar sem óteljandi ræður voru haldnar en hvergi var gert ráð fyrir skoðanaskiptum.“

Alrangt er að bera þessa fundi bandarísku flokkanna saman við landsfundi hér á landi. Til bandarísku fundanna er efnt í þeim megintilgangi að velja forsetaefni og blása stuðningsmönnum í brjóst baráttu- og siguranda tveimur mánuðum fyrir kjördag. Umræðurnar snúast um hvernig frambjóðandinn fellur kjósendum í geð og á hvaða hátt sigurstranglegast sé að kynna hann en ekki um orðalag á einhverjum ályktunum. Má segja að þarna gildi hið talaða orð þeirra sem fá aðgang að ræðustól í stóra fundarsalnum og hvernig það er túlkað. 

William Kristol, ritstjóri blaðsins Weekly Standard, stuðningsmaður repúblíkana lýsti ánægju með flokksþingið en vakti máls á því að Mitt Romney hefði ekki minnst einu orði á stríðið í Afganistan í ræðu sinni. Það væri stórundarlegt bæði vegna þess að Bandaríkjamenn halda þar úti fjölda hermanna og heyja stríð. Taldi hann þetta sýna að ekki væri hugsað fyrir öllu þegar ræða af þessu tagi væri samin. Hann benti hins vegar á hve fjölbreyttur hópur ræðumanna hefði talað í stóra sal flokksþingsins og þar hefðu ungir stjórnmálamenn komið fram og vakið verðskuldaða aðdáun eins og Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída. Þá sagði hann að það yrði erfitt fyrir demókrata að bjóða annað eins úrval af ungum stjórnmálamönnum, þeir ættu þá einfaldlega ekki í sínum röðum. Þar væru aðeins tveir afburðaræðumenn Bill Clinton, fyrrverandi forseti, og Barack Obama.

Það er dæmigert fyrir smæð stjórnmálaumræðna hér á landi að tveir bloggarar, annar þeirra alþingismaðurinn Mörður Árnason, býsnast yfir því að Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi verið í Tampa í tengslum við flokksþing repúblíkana og taka síðan til við að fimbulfamba um að Íslendingar séu frekar demókratar en repúblíkanar og allir íslenskir flokkar í raun til vinstri við bandarísku flokkana.

Ég hélt að menn væru hættir að fjargviðrast yfir ferðum manna, jafnvel stjórnmálanna, á hvers kyns fundi í útlöndum og þá ætti miðlun frétta að hafa opnað augu manna fyrir því hve varasamt er að leggja sömu mælistiku á þjóðir, skoðanir þeirra eða stjórnmálakerfi. Hafi evru-kreppan átt að kenna mönnum eitthvað er það hve ólíkar þjóðir eru þótt þær noti sömu mynt og hve erfitt og dýrkeypt getur verið að reyna að setja þær allar í sama mót.

Þegar hlustað er á ræður á flokksþingi repúblíkana hljóta allir að sannfærast um að þær eru fluttar fyrir bandaríska áheyrendur og til að afla sér stuðnings þeirra. Efni þeirra er almennt forvitnilegt vegna þess hvernig á málunum er tekið en ekki endilega vegna þess að menn séu sammála því sem er sagt. Þá veita ræðurnar einnig góða sýn á bandarískt samfélag og hve mikil áhersla er lögð á að hver einstaklingur sé metinn af eigin verðleikum og fái að njóta sín sem slíkur. Þar skilur ekki á milli flokkanna þótt þeir velji ólíkar leiðir að markmiðinu. Baráttan nú snýst um þetta kjarnaatriði þar sem repúblíkanar segja að Obama hafi sett einkaframtakinu of þröngar skorður, hann vilji hefta það og tali illa um þá sem hafa vaxið af eigin dugnaði.

Clint Eastwood sagði að stjórnmálamennirnir ættu ekki landið og þjóðina, heldur ætti þjóðin sig og landið, stjórnmálamennirnir væru ráðnir til að fara með þessa eign, gætu þeir það ekki ætti þjóðin ekki að ráða þá áfram til starfa fyrir sig, þeir ættu að víkja. Hann lýsti þessari skoðun á sinn hátt og hitti í mark.

Í nýjasta hefti The Economist er þessari sömu skoðun lýst með þeim orðum að Obama hafi sagt á flokksþingi fyrir fjórum árum að yrði hann kjörinn forseti mundi hann breyta Bandaríkjunum. Hann mundi skapa atvinnulausum störf, hefja aðgerðir til að snúa frá hlýnun jarðar og gera Bandaríkin stolt að nýju. Bendir blaðið á að í forsetatíð Obama hafi atvinnulausum í Bandaríkjunum fjölgað um þrjár milljónir manna og skuldir þjóðarinnar vaxið um 5000 milljarða dollara. Virðing Bandaríkjanna meðal múslima sé ekki meiri en á tímum George W. Bush, enn sé hætta af Íran og Guantánamo-fangelsið sé enn opið. Í lok leiðarans spyr blaðið Obama: Til hvers ætlar þú að nota fjögur ár í viðbót?

Það er engin furða að Bandaríkjaforseti með þennan málstað reyni að snúa baráttunni um embættið í árásir á andstæðing sinn og persónu hans. Gegn þessum árásum snerust repúblíkanar af mikilli hörku á flokksþingi sínu. Þeir gerðu það á áhrifamikinn hátt og sögðu Obama einnig stríð á hendur í ríkisfjármálum.

Fyrir stjórnmálamenn og skipuleggjendur stjórnmálastarfs í öðrum löndum skipta tökin á boðskapnum og aðferðirnar við að koma honum á framfæri meira máli en einstakir, staðbundnir efnisþættir enda er um opna, lýðræðislega flokka að ræða. Sjálfstæðisflokkurinn hefði gott af að tileinka sér, þótt ekki væri nema brot af þeim sóknarþunga sem einkenndi flokksþing repúblíkana í Tampa.