21.8.2012 18:45

Þriðjudagur 21. 08. 12

Furðulegasta uppákoman í samskiptum forseta Íslands og handhafa forsetavalds til þessa er fjarvera Ólafs Ragnars frá ríkisráðsfundi 1. febrúar 2004 þegar minnst var 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi. Ólafur Ragnar var á skíðum í Bandaríkjunum af því að honum þótti sér ekki gert nógu hátt undir höfði á afmælishátíðinni í Þjóðmenningarhúsinu.

Vorið 2004 óttuðust vinir Baugsmanna og miðla þeirra að alþingi samþykkti fjölmiðlalögin á meðan Ólafur Ragnar dveldist erlendis og handhafarnir mundu rita undir þau. Birtist neyðarákall til hans um að koma heim á forsíðu DV. Ólafur Ragnar hlýddi kallinu og lét undir höfuð leggjast að sitja brúðkaup Friðriks, ríkisarfa Danmerkur. Hann neitaði að rita undir lögin og sagðist með því vilja brúa gjá milli þings og þjóðar.

Í þessu ljósi koma á óvart fréttir um að Ólafur Ragnar telji handhafa forsetavalds ekki gera annað en kveðja sig í Leifsstöð. Staðreynd er, að þeir hafa einfaldlega forsetavald á meðan hann dvelst erlendis. Varla telur hann það einskis virði?

Hér var varað við því að hatrömm barátta um forsetaembættið eftir að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram í fimmta sinn kynni að skaða embættið og draga úr virðingu þess. Ófréttnæm umræða fréttastofu ríkisútvarpsins um forsetaembættið og handhafa forsetavalds er angi af þessari baráttu.  Hún er engum til sóma og dregur úr virðingu forsetaembættisins.