2.8.2012 23:30

Fimmtudagur 02. 08. 12

Umferðin verður mikil á Suðurlandi um verslunarmannahelgina. UMFÍ-mót á Selfossi laðar að sér á anna tug þúsunda gesta. Hið sama má segja um þjóðhátíð í Eyjum og flestir ferðast þangað með Herjólfi um Landeyjahöfn.

Í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð efna hvítasunnumenn til móts, venjulega eru þar nokkur þúsund gestir. Þá er efnt til mannfagnaðar í Hellishólum í Fljótshlíð og í Múlakoti koma flugáhugamenn saman.

Í fréttum varar lögreglan á Selfossi við umferðarhnútum við hringtorgið hjá Hveragerði og við Ölfusárbrúna. Ekki þarf fjölmenni eins og verður á ferðinni um þessa helgi til að umferðin sé hæg í gegnum Selfoss.

Menn verða að sætta sig við bið og tafir vegna mikillar umferðar hér eins og í öðrum löndum. Við erum hins vegar svo óvön langri bið á vegum úti að lögregla hvetur fólk um að glata ekki góða skapinu í biðröðinni. Erlendur kunningi spurði mig einhvern tíma hvort ég gæti almennt treyst því að verða ekki fyrir töfum vegna mikillar umferðar á akstri mínum milli Fljótshlíðar og Reykjavíkur. Ég sagði svo vera gesti mínum til undrunar. Hann sagðist alltaf þurfa að gera ráð fyrir mismunandi löngum töfum á slíkum ferðum í heimalandi sínu.

Lögregla verður með gæslu á vegum úti og stöðvar þá sem aka of hratt. Þeir eru vissulega hættulegir öðrum og brjóta lög. Hinir eru ekki síður hættulegir í umferðinni sem aka of hægt, þeir mynda biðröð sem erfiðara er að kyngja en því að umferðarmannvirki valdi töfum vegna of mikils álags. Hægfara bílstjórar skapa spennu og auka hættu á slysum. Á leiðinni frá Reykjavík í Landeyjarhöfn þyrfti á fáeinum stöðum að vera 2+1 til að draga úr slíkri spennu og þá mætti lögregla stundum ræða við þá sem aka of hægt þótt ekki geti hún sektað þá.