14.8.2012 22:50

Þriðjudagur 14. 08. 12

 

Að baki ákvörðunum um að gera vændiskaup refisverð býr ekki heilbrigð skynsemi heldur pólitísk rétthugsun. Hún varð að veruleika hjá sósíal-demókrötum í Svíþjóð. Skömmu eftir að ég varð dómsmálaráðherra kom fulltrúi þeirra hingað til lands og reyndi að selja mér hugmyndina. Ég keypti hana ekki og hafnaði henni þann tíma sem ég sat sem ráðherra. Sætti ég þungri gagnrýni á alþingi vegna þess og voru brýn mál á sviði refsiréttar tekin í gíslingu í þinginu til að knýja fram stefnubreytingu af minni hálfu í þessu máli.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ekki setið lengi þegar sænska refisreglan var leidd í lög hér á landi. Við greiddum þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn lögunum, Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson auk mín. Aðrir þingmenn flokksins greiddu ekki atkvæði. Nú sýna rannsóknir í Noregi sem vitað var að vændi færist í skúmaskot vegna reglunnar, melludólgar blómstra og mansal. Afbrotafræðingur, kennari við Háskóla Íslands, vill ekkert segja um áhrif refsivæðingarinnar hér, engin fræðileg rannsókn hafi verið gerð á vændi. Fulltrúi Stígamóta veit hins vegar allt um málið og virðist hafa tekið við af sænskum sósíal-demókrötum að boða fagnaðarerindi refisgleðinnar víða um lönd. Hvað ætli hún hafi fyrir sér um reynsluna frá Íslandi? Helst að lögregla láti ekki nóg að sér kveða. Í Noregi eru rannsóknir reistar á könnun meðal vændiskvennanna sjálfra.