11.8.2012 23:05

Laugardagur 11. 08. 12

Í fréttum ríkisútvarpsins í kvöld var sagt frá því að tveir ráðherrar VG til viðbótar Ögmundi Jónassyni, þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, vildu að ESB-aðildarferlið yrði tekið upp að nýju á vettvangi stjórnarflokkanna. Margt hefði farið á annan veg innan ESB og í viðræðunum en talið var líklegt sumarið 2009.

Eins og fram kemur í frétt Evrópuvaktarinnar um þessi ummæli ráðherranna leiðir þetta til einangrunar Steingríms J. í fjögurra manna ráðherraliði VG. Ráðherrar VG finna að fylgið er að skríða frá þeim vegna ESB-afstöðunnar þar sem VG-mennirnir Steingrímur J. og Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, ráða ferðinni með Össuri Skarphéðinssyni.

Flokksráðsfundur VG verður haldinn eftir tvær vikur. Til þessa hafa Steingrímur J. og Árni Þór fengið einhverja loðmullu um ESB samþykkta þar til að ekki skerist í odda við Samfylkinguna. Gerist það enn á ný eða tekur flokkurinn á sig rögg í ESB-málinu?

Fyrir þá sem fylgst hafa með gangi mála innan ESB og hvert stefnir í samskiptum aðildarríkjanna er undrunarefni að ráðherrar á Íslandi skuli ekki fyrr hafa hreyft efasemdum um réttmæti þess að ríkisstjórn Íslands léti eins og ekkert hefði í skorist.

Ögmundur Jónasson er ekki marktækur þegar að slíkum málum kemur á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hann talar digurbarkalega út á við en lætur aldrei í odda skerast inn á við vegna þess ástfósturs sem hann tók við ráðherrastólinn eftir að hafa einu sinni hrakist úr honum vegna skoðana sinna.