16.8.2012 21:50

Fimmtudagur 16. 08. 12

Það er einkennilegt að fréttastofa ríkisútvarpsins skuli birta eins og sjálfsagða staðreynd fullyrðingar forsætisráðuneytisins um að auðveldara yrði að skrásetja utanferðir forseta Íslands ef handhafar forsetavalds hættu að fylgja honum í Leifsstöð. Hvaða rök eru fyrir þessu? Nákvæmlega engin.

Lögregla fylgir forseta Íslands jafnan í Leifsstöð og þar tekur fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum á móti honum og fylgir honum út að flugvél. Þá er örugglega búið þannig um hnúta að viðhafnarstofa flugstöðvarinnar er opnuð fyrir forsetann og þar bornar fram veitingar. Að allt þetta yrði betur skráð ef handhafarnir hættu að kveðja forsetann eða taka á móti honum í flugstöðinni er fráleitt. Þá eru einnig skráðar launagreiðslur til handhafanna á meðan forsetinn dvelst erlendis auk þess sem sagt er frá ferðum hans í Stjórnartíðindum.

Líklega er ekki fylgst betur með utanferðum nokkurs Íslendings en forsetans. Nú segist forsætisráðuneytið hafa fundið upp betra skráningarkerfi með því að minnka umstangið og fréttastofa ríkisútvarpsins gleypir það athugasemdalaust.

Allt snýst þetta um eitt: að stríða Ólafi Ragnari Grímssyni eða lítillækka hann af því að Jóhanna Sigurðardóttir studdi hann ekki í forsetakosningunum.  Forsætisráðuneytið hefur aldrei lagst lægra í samskiptum við embætti forseta Íslands.