24.8.2012 23:55

Föstudagur 24. 08. 12

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, kaus að setja ekki flokksráðsfund sem hófst í dag til að leggja drög að samstöðu í flokki hans fyrir framboð og kosningavetur. Aðdragandi fundarins einkenndist af deilum innan þingflokks VG um ESB-málin þar sem níu þingmenn af 12 snerust gegn ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Björn Valur Gíslason þingflokksformaður skipaði sér við hlið Steingríms J. á móti meirihlutanum og einnig Þráinn Bertelsson sem sækir ekki flokksráðsfundinn og talar niður til hans.

Í fjarveru Steingríms J. setti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, flokksráðsfundinn og sagði meðal annars:

„Stærstu vonbrigði mín á kjörtímabilinu eru að sú samstaða og samheldni sem einkennt hefur okkar hreyfingu frá upphafi hefur horfið. Í staðinn hafa komið illdeilur og átök.“

Skyldi þetta vera ástæðan fyrir að Steingrímur J. kaus að vera fjarverandi við upphaf flokksráðsfundarins. Treysti hann sér ekki til að flytja setningarræðuna af ótta við að ýta frekar undir illdeilur og átök en lægja öldur og stuðla að samstöðu?

Einkunnin sem Katrín gefur flokksstjórnarháttum Steingríms J. er ekki há. Hún fellur hins vegar að stjórn hans á málefnum sem falla undir ráðherraembætti hans. Þar er síður en svo allt sem sýnist.