13.8.2012 20:00

Mánudagur 13. 08. 12

Þegar dró að þingkosningum vorið 2003 gekk Reynir Traustason, þáverandi blaðamaður á Fréttablaðinu, erinda Baugsmanna, leynilegra eigenda blaðsins, og  birti glefsur úr fundargerðum stjórnar Baugs frá því snemma árs 2002. Þær áttu að sanna að Davíð Oddsson hefði sem forsætisráðherra lagt á ráðin um að brjóta upp Baugsveldið. Var þetta liður í kosningabaráttu Samfylkingarinnar en skömmu fyrir birtingu frétta Reynis í þágu Baugsmanna og Samfylkingarinnar hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, flutt ræðu í Borgarnesi um óvild Davíðs í garð Baugs.

Davíð brást við þessum ásökunum af mikilli hörku og sagði frá fundi sínum með Hreini Loftssyni í London í janúar 2002. Davíð afhjúpaði tilganginn með „fréttamennsku“ Reynis Traustasonar. Samfylkingunni tókst ekki að fella ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Líkur á að boðað verði til kosninga fyrr en síðar aukast vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um ESB-málin.

Reynir Traustason stundar pólitíska blaðamennsku gegn núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Í þessu efni gengur Reynir erinda Samfylkingarinnar og VG í DV. Óhróðri Reynis er ætlað að skaða Bjarna persónulega á sama hátt og vegið var að Davíð Oddssyni persónulega í mars 2003. Nú eins og þá er óhjákvæmilegt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að losa sig við hælbítana.