Dagbók: ágúst 2006

Miðvikudagur, 30. 08. 06. - 30.8.2006 23:06

Fréttablaðið birti á forsíðu frétt þess efnis, að ég hefði gert tillögu til forseta Íslands um uppreist æru fyrir Árna Johnsen og í fjarveru forseta hefðu handhafar forsetavalds samþykkt hana.

Tillagan er í samræmi við að minnsta kosti 30 ára lagaframkvæmd eins og fram kom í fréttatilkynningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem út var gefin vegna áhuga fjölmiðla á málinu. Ef tillagan hefði ekki verið gerð, úr því að ósk lá fyrir frá Árna um uppreist æru, hefði mátt spyrja ráðuneytið, hvort Árni ætti ekki að njóta jafnræðis.

Vegna fyrirspurna fjölmiðlamanna gaf ráðuneytið út aðra tilkynningu um tíðni umsókna um uppreist æru, en þeim hefur fækkað undanfarin ár, enda skiptir hún í raun litlu, hreinsar til dæmis ekki sakarvottorð eins og sumir virðast halda.

Ég fékk nokkur tölvubréf vegna málsins og þar mátti enn greina óvild í garð Árna auk þess sem engu var líkara en bréfritarar teldu, að handhafar forsetavalds hefðu haft eitthvert val um að skrifa undir tillöguna.

Enn hefur vakið mér undrun, hve fljótt hrapað er að órökstuddri niðurstöðu, þegar um mál af þessum toga er að ræða. Í okkar þjóðfélagi bera einstaklingar skyldur og eiga rétt, hvort sem þeir heita Árni Johnsen eða eitthvað annað. Uppreist æru ræðst af rétti þess, sem um hana sækir - málið er ekki flóknara en það.