5.8.2012 23:55

Sunnudagur 05. 08 12

Afréttareigendur á Almenningum, bændur undir Eyjafjöllum, nágrannar Fljótshlíðinga handan Markarfljóts hafa með leyfi sveitarstjórnar Rangárþings eystra ákveðið að nýta Almenninga til beitar fyrir takmarkaðan fjölda fjár miðað við beitarþol. Þá bregður svo við að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins snúast gegn rétti bænda og látið er í veðri vaka að ráðstöfun þeirra ógni sjálfri Þórsmörk.

Stjórn félags afréttareigenda á Almenningum sendi frá sér yfirlýsingu í dag og skýrði málstað sinn. Þar segir að bændur undir Eyjafjöllum sem rekið hefðu fé inn á Almenninga hefðu árið 1989 tekið ákvörðun um að friða það landsvæði fyrir beit og hafið þar uppgræðslu á eigin kostnað og með styrk Landgræðslu ríkisins og fleiri aðila,. Þetta hafi verið gert í samræmi við samning við Landgræðslu ríkisins. Bændurnir sögðu samningnum upp árið 2000 en héldu áfram landgræðslu án þess að beita á Almenningum. Hæstiréttur felldi árið 2007 dóm um eignarhald bænda á afréttinni því fylgir réttur til upprekstrar á fé.

Árið 2009 tilkynntu bændur til Skógræktar ríkisins, héraðsnefndar vegna gróðurverndarnefndar, sveitarstjórnar og landgræðslunnar að þeir hygðust hefja upprekstur fjár inn á Almenninga.

Að beiðni frestuðu bændur upprekstri árið 2010 vegna goss í Eyjafjallajökli. Árið 2011 frestuðu bændur enn upprekstri skv. beiðni og féllust á að taka þátt í úttekt gróðurs með tilliti til beitarþols.

Skógrækt ríkisins fer með málefni Þórsmerkur skv. samningi sem bændur í Fljótshlíð gerðu við skógræktina 1931. Í þeim samningi var lögð sú skylda á Skógrækt ríkisins að girða af Þórsmörkina til varnar ágangi búfjár.  Skógræktin ákvað einhliða árið 1990 að taka niður girðinguna og skildi hún „við upprúllaðar girðingar og girðingarleifar í hirðuleysi inn í Þórsmörk og er svo enn eftir rúm 20 ár,“ segir í yfirlýsingu stjórnar afréttareigenda á Almenningum. Þar kemur einnig fram að gróður á Almenningum sé svipaður því sem er á afrétti Fljótshlíðinga. Ég hef farið um hann og veit að þar er gróður meiri en fé getur ógnað.