1.8.2012 21:20

Miðvikudagur 01. 08. 12

Nú má sjá samtal mitt við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN á netinu með því að fara inn hér. Við Birgir ræddum um stjórnarskrármálið og deilurnar um það. Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í innsetningarræðu sinni í dag fyrir hvernig hún hefur haldið á stjórnarskrármálinu í ágreiningi í stað þess að fylgja hefðinni um breiða samstöðu stjórnmálaflokkanna um stjórnarskrárbreytingar. Ég tek undir þessa gagnrýni Ólafs Ragnars og tel raunar að Jóhanna Sigurðardóttir hafi orðið sér mjög til skammar með málsmeðferðinni fyrir utan að ekki kemur til neinna stjórnarskrárbreytinga á þessu kjörtímabili haldi Jóhanna frekjulegri aðferðinni áfram.

Í dag ræði ég á ÍNN við Halldór Árnason, hagfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins. Við ræðum einkum um fjárlögin og fjárlagagerðina en Halldór starfaði í mörg ár í fjármálaráðuneytinu og síðan sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Hann þekkir manna best til fjárlagagerðar og telur pott brotinn hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. í þessu efni eins og öðrum.