28.8.2012 22:30

Þriðjudagur 28. 08. 12

Fulltrúar sjómanna frá Noregi og ESB-ríkjum gengu á fund Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, mánudaginn 27. ágúst til að hvetja hana til dáða í makrílviðræðunum við Íslendinga og Færeyinga. Af fréttum má ráða að sjómennirnir telji að minna af makríl sé á  Íslandsmiðum en áður. Segja þeir að tvær rannsóknir styðji þá niðurstöðu sem kemur ekki heim og saman við rannsóknir á vegum Hafrannsóknarstofnunar sem lauk 10. ágúst.

Þá hafa verið birt 11 atriði sem sjómennirnir vilja að haldið sé til haga í viðræðunum. Fyrri tilboð séu dregin til baka af ESB og Normönnum er fyrsta skilyrðið. Kröfur Íslendinga og Færeyinga eiga ekki við nein rök að styðjast. Íslendingar fái engan aðgang að miðum ESB og Noregs. Tíminn vinnur gegn Íslendingum. Samið til skamms tíma. ESB og Noregur grípi til refsinga. Gert verði hlé á aðildarviðræðum við Íslendinga. Samningar um kolmunna verði endurskoðaðir. Grænland fái ekki stöðu strandríkis og ekki verði samið við það.

Haft er eftir fulltrúum sjómannanna að fundurinn með Damanaki hafi verið jákvæður.

Rætt var við Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra um fyrirhugaðar makrílviðræður í London 3. september í  22 fréttum sjónvarps í kvöld. Framkoma hans var á þann veg að mér sýnist líklegt að hann sé alveg eins á þeim buxum að verða við kröfum ESB og Norðmanna á fundinum í London.  Það yrði í samræmi við framgöngu hans í Icesave-málinu.

Í fyrri fréttum sjónvarps veittist Steingrímur J. að Morgunblaðinu fyrir að ræða við Ragnar Arnalds VG-mann sem sagðist efast um lögmæti ályktana flokksráðsfundar VG vegna fámennis. Það var skrýtið að fréttamaður skyldi láta Steingrím J, ráðast á miðilinn sem sagði frá viðhorfi Ragnars án þess að benda flokksformanninum á að um orð Ragnars var að ræða en ekki Morgunblaðsins.