18.8.2012 23:05

Laugardagur 18. 08. 12

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir frá samskiptum sínum við forseta Íslands á meðan hann gegndi forsætisráðherraembættinu í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag. Davíð segir:

„Stundum hefur verið um það rætt að finna þyrfti annað fyrirkomulag fyrir staðgengil eða staðgengla forseta í forföllum hans en nú er. Auðvitað er ekkert að því að skoða slíkt. En þó er það svo að aldrei hafa komið fram neinir annmarkar, svo vitað sé, á núverandi skipan og fyrst svo er, því þá að hringla með það? Nóg er nú hringlið. Svarið, sem stundum er gefið, um að menn geri þetta einhvern veginn öðru vísi í útlöndum, er venjulegt svar á útsöluprís.“

Þetta er kjarni málsins. Þremur vikum eftir fimmtu innsetningu Ólafs Ragnars lekur forsætisráðuneytið til fréttastofu ríkisútvarpsins að á síðasta ári hafi Jóhanna Sigurðardóttir viljað taka upp nýja fylgdarsiði gagnvart forseta Íslands en ekki komist upp með það vegna andstöðu Ólafs Ragnars.

Hér er ekki um neitt fréttaefni að ræða. Samt er málið dag eftir dag í fréttatímum ríkisútvarpsins. Allt er það dæmigert fyrir misnotkun Samfylkingarinnar á tengslum við fréttamenn sem ganga í vatnið af því að þeir vilja gera á hlut Ólafs Ragnars.

Málið fer í möppuna sem geymir axarsköft Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Fréttastofan hefur einnig sett niður vegna þjónkunar hennar við þá sem hafa haldið þessu máli að henni.