31.8.2012 23:05

Föstudagur 31. 08. 12

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um flokksþing repúblíkana.

Engum sem fylgst hafa með megininntaki í flokksstarfi vinstri-grænna undanfarin misseri ætti að koma á óvart að hart sé sótt að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra á flokksvettvangi eftir að hann lenti undir öxinni hjá kærunefnd jafnréttismála. Ögmundur segist að vísu ekki taka nefndarniðurstöðuna nærri sér, samviska sín sé hrein og það dugi sér hvað sem aðrir segi. Hann sá ástæðu til að taka síðar fram að ekki bæri að túlka orð sín á þann veg að honum bæri ekki að fara að landslögum.

Á síðasta landsfundi VG voru samþykktar fimm ályktanir undir fyrirsögninni Kvenfrelsi. Við stofnun flokksins tók til starfa sérstök hugmyndasmiðja um málefni kvenna og liggur fyrir langt skjal um það mál. Af öllu má ráða að áhugamenn um þessi málefni innan VG telji Ögmund hafa gert atlögu að einni af grunnstoðum flokksins með ákvörðun sinni.

„Menn hljóta að taka svona niðurstöðu alvarlega," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á visir.is. Hann segir niðurstöðuna ákveðið áfall en vill ekki ganga svo langt að segja að Ögmundur eigi að segja af sér vegna málsins. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, er svipaðrar skoðunar en vill fá frekari skýringar innanríkisráðherra áður en hann tekur afstöðu til málsins. Afstaða hans er með öðrum orðum skilorðsbundin, hann kann að krefjast afsagnar Ögmundar.

Ögmundur fær engan stuðning eigin flokksmanna í þessu máli. Hann flýtur áfram í ríkisstjórninni af því að hann er á sama báti í jafnréttismálum og Jóhanna Sigurðardóttir, jafnréttis- og forsætisráðherra. Ögmundur hlýtur þó að velta fyrir sér hvers vegna hann er tekinn miklu harðari tökum en Jóhanna á sínum tíma. Er engu líkara en feministum og öðrum þyki frekar ástæða til gagnrýni þegar kærunefndin setur ofan í við karlmann en konu – hvar er jafnréttið í því?