26.8.2012 21:54

Sunnudagur 26. 08. 12

Í dag fórum við í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð þar sem þess var minnst að 120 ár eru liðin frá fæðingu Nínu Sæmundsson myndhöggvara. Séra Önundur Björnsson prédikaði. Að lokinni guðsþjónustunni gengum við í minningarlundinn um Nínu á fæðingarstað hennar. Ég var þar síðast fyrir 12 árum og vakti undrun nú hve trjágróður hefur dafnað vel í lundinum á þessum árum. Við ókum síðan að Sögusetrinu á Hvolsvelli þar sem sjá mátti hina frægu styttu Hafmeyjuna eftir Nínu sem nú er í eign Ingibjargar Pálmadóttur og Haralds Sturlaugssonar á Akranesi en verður næstu tvær vikur til sýnis á Hvolsvelli.

Lilja Mósesdóttir þingmaður segir á vefsíðu sinni sunnudaginn 26. ágúst:

„Ég vil ljúka þessari umfjöllun um blogg Stefáns [Ólafssonar prófessors við Háskóla Íslands] með því að hvetja hann til að vanda málflutning sinn. Starfsfólk Háskóla Íslands er vant að virðingu sinni eins og nýleg höfnun á beiðni um að ég fengi að stýra málstofu við stofnunina ber með sér. Beiðninni var hafnað með þeim rökum að ég væri of pólítískur málstofustjóri. Ég geri því þá kröfu til einstaklinga sem starfa við HÍ að gæta þess að vera ekki of pólitískir í skrifum sínum um fagsvið mitt og beita staðreyndum, þekkingu og haldbærum rökum.“

Á Evrópuvaktinni benti ég í gær á hvernig Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, skrifar um Ólaf Þ. Stephensen og segir að trúa megi sér af því ríkið borgi henni laun en Ólafur Þ. fái laun frá eigendum Fréttablaðsins.

Sigurbjörg og Stefán eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar í hópi háskólakennara og telja sig greinilega þurfa að vega persónulega að þeim sem lýsa sjónarmiðum sem þau álíta andstæð hagsmunum flokksins og ríkisstjórnarinnar.

Innan Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem ber að sjá til þess að ekki falli kusk á heiður háskólasamfélagsins. Skyldi hún kalla Sigurbjörgu og Stefán á sinn fund?