15.8.2012 17:00

Miðvikudagur 15. 08. 12

Viðtal mitt á ÍNN við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, miðvikudaginn 8. ágúst er komið á netið og má skoða það hér.

Í dag ræddi ég við Atla Harðarson, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, og má sjá þáttinn klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN og síðan á tveggja stunda fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Fyrir fáeinum dögum ræddi ég skrif Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og sagði þau minna mig á þjónustu Reynis við Baugsmenn á Fréttablaðinu í mars 2003 þegar vegið var að Davíð Oddssyni. Hvatti ég til þess að Bjarni losaði sig við hælbítana.

Samfylkingarvefsíðan Eyjan telur að með þessu hafi ég verið að vara við Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Er rifað upp í ritstjórnardálki síðunnar, Orðinu á götunni, þriðjudaginn 14. ágúst að Guðlaugur Þór fékk 25 milljónir króna haustið 2006 í styrki frá Baugi og fleirum til framboðs gegn mér – háði hann þá dýrustu prófkjörsbaráttu allra tíma.

Í dag birtist annar ritstjórnardálkur um sama efni á Eyjunni og er hann skrifaður fyrir þrýsting frá stuðningsmönnum Guðlaugs Þórs sem hefur þótt ritstjóri Eyjunnar gert á hlut þingmannsins með því að segja hann hælbítinn.  Ritstjórinn segir:

„Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór og stuðningsmenn hans láti sér slíkt [að Eyjan hafi kallað hann hælbít] í léttu rúmi liggja. Í fyrsta lagi búi Guðlaugur Þór að ótrúlega öflugu stuðningsneti í borginni, sem sé ómetanlegt afl í prófkjörum og í annan stað sé þingmaðurinn með þeim duglegri sem starfa á Alþingi Íslendinga og án efa meðal öflugustu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það verði því þrautin þyngri fyrir Björn og Styrmi að fella Guðlaug Þór úr forystusveit íhaldsins í borginni, en þangað vilja þeir einmitt koma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að í prófkjöri flokksins á vetri komanda…“

Þá vitum við það, ég veit hins vegar ekki til þess að Styrmir Gunnarsson eigi hinn minnsta hlut að skrifum mínum um Reyni Traustason hvað þá heldur að ég hafi hafi sett samnefnara milli Reynis og Guðlaugs Þór og síst af öllu að þetta snerti eitthvað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.  Skrif ritstjóra Eyjunnar sýna hins vegar mikla spennu meðal þeirra sem hvetja hann til dáða í þessu máli – jafnvel óttafulla spennu.