17.8.2012 22:10

Föstudagur 17. 08. 12

Hér var í gær vikið að deilu embættis forseta Íslands og forsætisráðuneytisins um fylgd með forseta Íslands í Leifsstöð þar sem fréttastofa ríkisútvarpsins hefur gegnt lykilhlutverki. Hún gerði það enn í kvöld þegar hún tók að sér að túlka fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofunni þar sem skýrt er frá því að málið snúist ekki um hvort forseta sé fylgt á flugvöll eða ekki, heldur um það hvenær og hvernig forsetavaldið færist frá forseta til handhafanna.

Stjórnskipun byggist ekki aðeins á formlegum reglum heldur líka á hefðum sem löng venja hefur helgað, segir forsetaskrifstofan.. Allt frá stofnun lýðveldisins hafi þessi flutningur á forsetavaldinu verið í formi handabands við brottför forseta þar sem ekki hafi fundist annað form sem tryggði jafn vel að enginn vafi væri um stað og stund slíkra breytinga á forsetavaldinu. Hvorki forseti né handhafar geti sett ábyrgðina á aðra, stjórnarskrá lýðveldisins geri ekki ráð fyrir að embættismenn deili ábyrgð sem sé, samkvæmt stjórnarskránni, forseta og handhafanna einna. Því verði þessu fyrirkomulagi ekki breytt nema  stjórnskránni verði breytt eða fram komi haldbærar tillögur um hvernig sé hægt að haga þessum þætti stjórnskipunarinnar með öruggum hætti á annan veg.

Forsætisráðuneytið bar fyrir sig að ekki væri unnt að skrá utanferðir forseta sem skyldi nema reglum um fylgd væri breytt. Nú er ekki lengur minnst á þetta atriði af fréttastofu ríkisútvarpsins heldur var fullyrt í kvöld, án þess að geta heimilda, að tilkynning forsetaskrifstofunnar væri í raun marklaus þar sem forseti færi oft úr landi án þess að honum sé fylgt.

Þetta mál hefur breyst í ágreining milli fréttastofu ríkisútvarpsins og forsetaskrifstofunnar, Spurning er hvort fréttastofan hafi ákveðið að taka Ólaf Ragnar í bakaríið vegna þess hvernig hann talaði um hana í upphafi forsetakosningabaráttunnar. Eins og kunnugt er þagði fréttastofan þunnu hljóði um hina þungu gagnrýni forseta á hana. Í Efstaleitinu finnst mönnum miklu fréttnæmara hvernig forseti er kvaddur við utanferðir en þegar hann gagnrýnir fréttastofuna sjálfa.

Kenning forsetaembættisins um flutning valds með handabandi við brottför forseta úr landi er út í hött. Um er að ræða virðingarvott við embætti forseta Íslands í ætt við virðinguna fyrir íslenska fánanum, þjóðsöngnum eða öðrum táknum lýðveldisins.