27.8.2012 22:50

Mánudagur 27. 08. 12

Nú má sjá viðtal mitt við Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknarstofnunarinnar, á vefsíðu ÍNN. Þeir sem vilja fræðast um makríl og þorsk við landið ættu að hlusta á samtalið.

Augljóst er að forráðamenn og spunaliðar Samfylkingarinnar hafa ákveðið að fara ekki að ráðum þeirra sem telja óskynsamlegt að flokkurinn einskorði sig við ESB-málin og leggi allt undir vegna þeirra. Í dag birtast að minnsta kosti þrjár greinar og frásögn af einni ræðu þar sem samfylkingarmenn mæla ESB-aðild bót og finna andstæðingum hennar allt til foráttu.

Björgvin G. Sigurðsson og Árni Páll Árnason, alþingismenn og fyrrverandi ráðherrar, rita greinar í Fréttablaðið, Árni Páll flytur ræðu hjá samtökunum með hógværa nafninu, Sterkara Ísland, og Jóhann Hauksson, upplýsingastjóri Jóhönnu, leggja allir áherslu á að ekki megi hlusta á nöldrið í VG-liðinu sem leggur áherslu á að endurmeta stöðu ESB-viðræðnanna.