Miðvikudagur, 19. 08. 09.
Í kvöld var fyrsti þáttur minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN og ræddi ég við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra.
Eins og lesendum síðu minnar er kunnugt hef ég lýst undrun minni á því, hve langt þingmenn Sjálfstæðisflokksins ganga til að aðstoða ríkisstjórnina við að koma stórmálum í gegnum alþingi. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, stjórnmálafréttaritari mbl.is og spunameistari í þágu ríkisstjórnarinnar, misnotar þessa afstöðu mína til að koma höggi á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vegna kröfu hans um, að Icesave-samningarnir verði teknir upp og gengið til nýrra viðræðna við Breta og Hollendinga. Á mbl.is 19. ágúst má lesa:
„Margir ráku upp stór augu þegar Bjarni Benediktsson sakaði ríkisstjórnina um að stórskaða hagsmuni landsins með því að kynna ekki fyrirvara við Icesave-samninginn sem gagntilboð. Sjálfstæðismenn stóðu að samþykkt fyrirvaranna í fjárlaganefnd.
Málið skýrðist nokkuð þegar Björn Bjarnason kallaði stjórnandstöðuna hjálparsveit ríkisstjórnarinnar á heimasíðu sinni. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur bendir á að það sé frekar óvanalegt í íslenskum stjórnmálum að stjórnandstöðuflokkur láti frá sér tækifæri til að koma höggi á ríkisstjórnina.
Hann bendir á að ríkisstjórnin hafi líka teygt sig frekar langt í samkomulagsátt. Svo langt að það sé næstum því á gráu svæði hvort fyrirvararnir séu í raun gagntilboð. Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun klofinn í afstöðu sinni til málsins. Atvinnurekendur í röðum þeirra hafi til að mynda verið orðnir óþreyjufullir að ljúka málinu.
Ákveðinn hópur innan flokksins sem sé stundum kallaður skrímsladeildin sé ósáttur við að flokkurinn hafi gengist inn á stefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin kalli þetta fyrirvara en ekki gagntilboð sé hún að koma formanninum í bobba gagnvart þessum armi. Hún sé í raun að segja að það hafi ekki verið gengið að kröfu Bjarna Benediktssonar um nýjar samningaviðræður.
Bjarni sé hinsvegar að segja við sína eigin flokksmenn ekki síður en almenning, að þetta sé það róttæk breyting að hún jafngildi gagntilboði og það muni þurfa að semja upp á nýtt.“
Hafi margir rekið upp stór augu, þegar Bjarni lýsti skoðun sinni á þingi, held ég, að enn fleiri reki upp stór augu, þegar þeir kynna sér þennan undarlega samsetning á mbl.is. Í fyrsta lagi er spuni Þóru Kristínar til marks um, að enginn faglegur metnaður ríkir lengur við ritstjórn mbl.is. Í öðru lagi
öðru lagi er dæmalaust, að prófessor í stjórnmálafræði skuli tala á þann veg, að innan Sjálfstæðisflokksins starfi „skrímsladeild“. Á hvaða rannsóknum ætli prófessorinn byggi þessa skoðun sína? Hún ræðst einfaldlega af ómálefnalegri þjónkun við ríkisstjórn, sem er heillum horfin. Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sýnir þessi frétt það eitt, hvaða augum spunameistarar stjórnarflokkanna líta hjálparstarf þeirra í þágu ríkisstjórnarinnar. Er ekki mál að linni?